„Það er góður gangur í rannsókninni,“ segir Einar Guðberg Jónsson lögreglufulltrúi í samtali við Vísi. Hann segir niðurstöður réttarmeinarannsóknar nú liggja fyrir en að hann geti ekkert frekar gefið upp um þær.
Þá segir hann að allar líkur séu á því að farið verði fram á lengra gæsluvarðhald yfir manninum sem grunaður er um manndrápið. Hann hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 5. júní síðastliðnum, daginn eftir manndrápið, en það rennur út þann 1. júlí næstkomandi.
Engin játning liggur fyrir í málinu, að sögn Einars Guðbergs.
Gert er ráð fyrir því að rannsókn málsins gæti tekið mánuði en meðal þess sem rannsakað verður er ástand hins grunaða.
Þann 4. júní var tilkynnt um látinn mann að heimili hans í Barðavogi í Reykjavík en fyrr um daginn hafði lögreglu borist tvær tilkynningar um ofbeldisfulla hegðun manns í húsinu sem síðar var grunaður um að hafa orðið nágranna sínum að bana.