Blaðamaður hafði samband við Guðna Sigurðsson, upplýsingafulltrúa Icelandair, og Nadine Guðrúnu Yaghi, upplýsingafulltrúa Play, til að forvitnast um ástandið.
Mannekla valdur að ástandinu
„Þetta eru ákveðnir flugvellir sem hafa verið fréttir af þar sem hefur verið mikil mannekla, sem skapar alls konar álag. Og það er víða í heiminum,“ sagði Guðni en tók fram að það hefði gengið ágætlega að manna á Keflavíkurflugvelli, að minnsta kosti hjá Icelandair og Isavia.
Ástæðurnar fyrir þessu álagi sem hefur myndast víða væri tilkomið vegna manneklu í kjölfar heimsfaraldurins.
er algjör þvæla að fara með innritaðan farangur í 5 nátta borgarferð?
— rakelsifharalds (@rakelsifharalds) June 22, 2022
svo scary þessar ferðatöskuflugvallahryllingsmyndir pic.twitter.com/JSyzDlF93J
„Í heimsfaraldrinum var starfsfólki sagt upp og flugvellirnir og þau fyrirtæki sem þjónusta flug drógu saman seglin. Svo hefur ekki gengið að manna þessar stöður á mörgum stöðum. Það er staðan í heiminum, fyrir utan Ísland,“ sagði Guðni um ástandið.
Aðspurður hvar þetta væri gat hann ekki sagt til um það nákvæmlega, þetta væri vandamál um allan heim. Þeir flugvellir sem hefur verið fjallað um, Schiphol í Amsterdam og Heathrow, ættu það sammerkt að vera stórir flugvellir og á slíkum völlum hefði mannekla meiri áhrif.
Aukning í „tösku-seinkunum“
Nadine, upplýsingafulltrúi Play, sagði að flugfélagið sæi klárlega aukningu í því sem kallast „tösku-seinkanir“ þar sem töskur skila sér seint eða skila sér ekki. Þetta væri alfarið vegna þjónustuaðilanna sem eru að glíma við skort á starfsfólki á flugvöllum erlendis.
Hún tók þó fram að í yfir 90% tilvika skiluðu töskurnar sér á endanum, það væri hins vegar allur gangur á því hvenær þær skiluðu sér. Það væri óþolandi fyrir fólk að lenda í þessu en í raun lítið hægt að gera.
Aðspurð hvar fólk gæti lent í þessu sagði að ástandið væri víða slæmt á þeim Evrópu-áfangastöðum sem flugfélagið færi, sérstaklega væri það slæmt í Dublin. Eftir samtalið sendi Nadine svo myndband á Vísi frá Dublin þar sem Kristján Þór Zoëga, flugstjóri Play, stökk út úr flugvél til að hlaða farangri sjálfur upp í vélina.