Hæstiréttur Bandaríkjanna sneri við tæplega fimmtíu ára gömlu dómafordæmi um að konur hefði stjórnarskrárvarinn rétt til þungunarrofs á föstudag. Fjöldi ríkja ætlar að banna þungunarrof strax á næstu dögum og vikum eða takmarka verulega aðgang að því. Tugir milljóna kvenna missir þannig aðgang að þungunarrofi í heimaríkjunum sínum á næstunni.
Alríkisstjórnin hefur fá vopn í höndum til að bregðast við dómnum. Hún ætlar hins vegar að reyna að koma í veg fyrir að ríkin geti líka bannað lyfið mifepristone sem hefur verið nefnt þungunarrofspillan í Bandaríkjunum.
Reuters-fréttastofan segir að stjórnin gæti byggt á því að sú staðreynd að Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) hafi gefið grænt ljós á notkun lyfsins þýði að ríkin geti ekki bannað notkun þess.
Merrick Garland, dómsmálaráðherra, sagði að ríkin gætu ekki bannað notkun mifepristone á grundvelli þess að þau séu ósammála sérþekkingu FDA á öryggi þess og gagnsemi. Lyfið hefur verið með markaðsleyfi í Bandaríkjunum frá árinu 2000.
Erfitt gæti reynst fyrir ríki sem banna þungunarrof að koma í veg fyrir að konur nálgist lyfið. Það er hægt að kaupa á netinu eða í öðrum ríkjum.
Hópur ríkja hefur þó reynt að takmarka notkun lyfsins. Í nítján ríkjum verða konur að mæta á staðinn til að geta verslað pilluna þrátt fyrir að FDA setji engar slíkar kvaðir á notkun þess.
Joe Biden Bandaríkjaforseti lýsti hæstaréttardóminum sem „öfgafullum“. Auk þess að lofa að taka slaginn um þungunarrofspilluna sagði hann að alríkisstjórnin myndi tryggja að ríki kæmu ekki í veg fyrir að konur ferðuðust til annarra ríkja til að gangast undir þungunarrof.