Neskaupstaður er mjög fallegt bæjarfélag þar sem lífið gengur meira og minna út á sjávarútveg enda flott sjávarútvegsfyrirtæki á staðnum eins og Síldarvinnslan. Þá er fjórðungssjúkrahús í bæjarfélaginu, verkmenntaskóli, flottur grunnskóli, tónlistarskóli, leikskóli og svona væri hægt að telja upp lengi, lengi. Þá er öflug ferðaþjónusta á staðnum með hótelum og veitingastöðum.
Íbúar staðarins hrósa honum í hástert og segja að það sé hvergi betra að búa á Íslandi en í Neskaupstað.
„Þetta er öruggt svæði að búa á. Alltaf veðurblíða, hiti og sól og skemmtilegt fólk,“ segir Jeff Klemensen.

„Ég myndi segja að það væri nálægðin við náttúruna hérna, sjóinn og fjöllin. Fólkið hérna og svo erum við með ótrúlega heppin með stór og góð fyrirtæki hérna, sem hafa gert góða hluti,“ segir Jóhanna Smáradóttir.

„Ég myndi segja umhverfið og fólkið og frelsið, sem börnin okkar fá og bara nálægðin við hafið,“ segir Rannveig Hrund Ólafsdóttir.

„Ég myndi segja að veðrið væri best, svona þegar það er gott en þegar það er vont er það það vesta við bæinn. Það skiptir engu máli hvar maður er, það er alls staðar gott að vera,“ segir Ásmundur Páll Hjaltason.

„Fjöllin og fólkið og það er samkennd hérna á meðal íbúa. Ég er búin að búa hér í 38 ár, þannig að mér finnst bara yndislegt að búa hérna,“ segir Halla Höskuldsdóttir, leikskólastjóri.

Ertu með fullan leikskóla af börnum eða?
„Nei, þau mættu vera miklu fleiri, þeim hefur bara fækkað eftir að við vorum í gamla leikskólanum og komum hingað niður eftir í þennan leikskóla og höfum nóg pláss. Ég bara hvet alla, sem eru einhvers staðar að leita sér af leikskólaplássi fyrir börnin sín að koma hingað, hér er nóg pláss í Neskaupstað.“

