Aðildarsamningar ríkjanna tveggja voru undirritaðir í dag en í tilkynningunni segja ráðherrarnir að ríkin séu tilbúin að ljúka fullgildingarferlinu í snatri.
„Ég styð aðild Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu. Finnland og Svíþjóð eru öflugir málsvarar lýðræðis, mannréttinda og félagslegra gilda sem eru mikilvæg sjónarmið innan Atlantshafsbandalagsins,“ er haft eftir Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra Íslands.
Í tilkynningu er þá haft eftir Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, að ríkin muni standa við bakið á Finnum og Svíum í öryggismálum þar til ríkin hafa formlega gengið í bandalagið. Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, tekur í sama streng og segir að aðild ríkjanna tveggja muni styrkja NATO og gera Norðurlöndin öruggari.