Breska ríkisútvarpið greinir frá því að um 130 manns hafi verið handtekin í minnst fimm Evrópulöndum í tengslum við málið. Talið er að mansalshringurinn hafi snúist um það að smygla flóttafólki frá meginlandi Evrópu yfir Ermarsund og til Bretlandseyja.
Fórnarlömb mansalsins eru talin vera um 10.000 talsins. Þeim á að hafa verið smyglað yfir Ermarsund á tólf til átján mánaða tímabili.
Átján voru handtekin í Þýskalandi, en borgin Osnabrück í Þýskalandi var á meðal þeirra borga sem lögregla þar í landi einbeitti sér hvað mest að. Fólk var einnig handtekið í Bretlandi, Frakklandi, Belgíu og Hollandi.
Talið er að aðgerðin sé ein stærsta alþjóðlega lögregluaðgerð gegn mansali í sögunni.