Malard skoraði markaði eftir að hafa gefið hælsendingu á Matéo sem fann Malard aftur í hlaupinu en íslenska vörnin virtist hreinlega ekki vera mætt til leiks á þeim tímapunkti. Fleiri lögleg mörk voru ekki skoruð í venjulegum leiktíma, en Frakkar náðu þó að setja boltann tvisvar í netið en jafn oft voru mörkin dæmd af, réttilega. Fyrst eftir rangstöðu og svo hendi.
Ísland varði drjúgum tíma í vörn í þessum leik en átti þó sín færi. Sveindís Jane skallaði í slá eftir hornspyrnu en færi Íslands voru því miður ekki mjög afgerandi í kvöld og Frakkar töluvert sterkari aðilinn og mun meira með boltann. Það mæddi mikið á vörn Íslands í kvöld og bar Glódís Perla af þar, að hinum varnarmönnunum ólöstuðum.
Í uppbótartíma seinni hálfleiks fengu Íslendingar svo vítaspyrnu, sem dæmd var löngu eftir brotið eftir skilaboð úr VAR herberginu. Dagný Brynjarsdóttir fór á punktinn og skoraði af öryggi. Fleira gerðist ekki í þessum leik þar sem dómarinn flautaði leikinn af áður en Frakkar náðu að taka miðju, en þá voru 12 mínútur komnar í uppbótartíma, eftir tvö löng stopp eftir að 90 mínútur voru komnar á klukkuna.
Þar sem Belgar lögðu Ítalíu í hinum leik kvöldsins í riðlinum eru Íslendingar úr leik, taplausar.
Byrjunarlið
Markvörður: Sandra Sigurðardóttir 7
Greip oft vel inn í, þá sérstaklega í fyrirgjöfum Frakkanna. Hefði mögulega átt að gera betur í markinu sem Frakkar skoruðu en heilt yfir traust frammistaða hjá Söndru í kvöld.
Hægri bakvörður: Guðný Árnadóttir 6
Frakkarnir sóttu mikið upp kantinn hjá Guðnýju sem stóð sína vakt með ágætum.
Vinstri bakvörður: Hallbera Guðný Gísladóttir 5
Lítt áberandi í leiknum nema í föstum leikaatriðum. Hefur oft átt betri leiki í íslenska búningnum.
Miðvörður: Glódís Perla Viggósdóttir 7
Flott frammistaða hjá Glódísi í kvöld. Stoppaði urmul af sóknum Frakka og var hárbreidd frá því að skora í uppbótartíma. Besti leikmaður Ísland í kvöld.
Miðvörður: Ingibjörg Sigurðardóttir 6
Sterk innkoma hjá Ingibjörgu sem lét Frakkana finna vel fyrir sér. Henti sér fyrir ófáa bolta og var mjög vinnusöm. Hefði stundum mátt vera rólegri á boltanum í uppspilinu.
Miðjumaður: Dagný Brynjarsdóttir 7
Virkaði svolítið týnd á köflum gegn öflugri miðju Frakka. Ógnandi að vanda í föstum leikatriðum og kláraði leikinn með góðu marki.
Miðjumaður: Sara Björk Gunnarsdóttir (fyrirliði) 7
Sennilega besti leikur Söru á mótinu. Miklu ferskari í kvöld en í fyrstu tveimur leikjunum. Augljóst að Frakkarnir lögðu mikla áherslu á að stoppa hana og gáfu henni ekki mikið pláss til að vinna með. Nálægt því að skora með skalla áður en hún var tekin útaf.
Miðjumaður: Karólína Lea Vilhjálmsdóttir 7
Skilaði mikillli vinnu í kvöld, þá sjaldan sem hún fékk úr einhverju að moða. Líflegust Íslendinga fram á við.
Hægri kantur: Sveindís Jane Jónsdóttir 5
Ógnandi eins og alltaf en gat ekki klárað leikinn, virtist vera meidd í læri. Henti í algjört dauðafæri í byrjun þegar hún skallaði í slá, mögulega besta færi Íslands í leiknum. Ísland saknaði meira framlags frá Sveindísi í kvöld.
Vinstri kantur: Agla María Albertsdóttir 5
Agla virkaði oft hálf hrædd við Frakkana og náði sér aldrei almennilega á strik í kvöld.
Framherji: Berglind Björg Þorvaldsdóttir 5
Átti tvö virkilega góð færi sem hún náði ekki að nýta. Mokaði boltanum yfir í dauðafæri eftir hornspyrnu í fyrri hálfleik og skaut svo framhjá úr góðu skotfæri í seinni.
Varamenn
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir 6 - Kom inn fyrir Hallberu Guðnýju á 60. mínútu.
Skilaði ágætis framlagi án þess að hafa afgerandi áhrif á leikinn.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir 6 - Kom inn fyrir Söru Björk á 60. mínútu.
Flott innkoma hjá Gunnhildi. Barðist eins og ljón eins og alltaf og nældi í vítaspyrnuna.
Svava Rós Guðmundsdóttir 6 - Kom inn fyrir Sveindísi Jane á 60. mínútu.
Náði frábærum spretti en síðasta sendingin klikkaði.
Amanda Andradóttir - Kom inn fyrir Öglu Maríu á 82. mínútu
Spilaði of lítið til að fá einkunn.
Elín Metta Jensen kom inn á fyrir Guðnýju Árna á 88. mínútu
Spilaði of lítið til að fá einkunn.