„Þetta er bara svekkjandi. Við stóðum okkur virkilega vel í dag. Við áttum þetta stig skilið í dag en það er ógeðslega leiðinlegt að það hafi ekki verið nóg fyrir okkur. Svekkjandi að enda þetta svona“, sagði Sveindís þegar hún var spurð út í tilfinningar sínar eftir leikinn.
Því næst var hún spurð að því hvernig var að spila leikinn en það var fullt af áhorfendum og mikil læti.
„Jú þetta var mjög skemmtilegt að spila leikinn og gaman að það hafi gengið svona vel. Varnarleikurinn var góður í dag og svo beittum við góðum skyndisóknum en hefðum getað gert betur úr föstu leikatriðunum. Svo var mjög gaman að hafa allt þetta fólk í stúkunni að styðja okkur áfram.“
Sveindís var spurð að því hvað hún tæki út úr mótinu en þetta var fyrsta stórmótið hennar.

„Alveg pottþétt reynsluna. Mjög gott að fá að byrja alla leikina og fá að spila svona mikið hérna. Ég er mjög þakklát fyrir það. Ég tek það með mér beint til Þýskalands og vonandi peppar það mig áfram.“
Sveindís er rísandi stjarna í knattspyrnuheiminum og var spurð að því hvort hún finndi fyrir athyglinni.
„Já og nei. Ég reyni að spá ekki í því en auðvitað sér maður af og til að fólk er að minna mann á þetta. Mér finnst það bara gaman en ég læt það ekki trufla mig.“
Það er mjög stutt síðan Sveindís spilaði hér heima fyrir Keflavík til dæmis og árangurinn hefur verið mjög góður á stuttum tíma. Hún var spurð að því hvort það væri ekki gaman að spila á stórmóti þó hún hafi prófað að spila á Nou Camp.
„Jú þetta er geðveikt. Mér líður samt eins og það séu mjög mörg ár síðan ég var í Keflavík en þetta sýnir bara að æfingin er að skila sér. Gaman að fá að vera hérna með þessu landsliði.“

„Allar gömlu kempurnar eru geggjaðar og allar stelpurnar hafa sýnt mér mikinn stuðning og það er geggjaður andi í þessu liði.“
Cecilía Rán Rúnarsdóttir meiddist fyrir mót og hélt Sveindís á treyju hennar fyrir fyrsta leik. Hún var spurð út í mikilvægi þess að hafa vinkonur sínar með í hópnum þrátt fyrir meiðslin.
„Það var mjög mikilvægt. Við erum herbergisfélagar en áttum að vera einar í herbergi en við vildum vera saman í herbergi. Hún kom svo aftur eftir aðgerðina og þá var þetta allt eins og það á að vera.“