Lavrov er þessa stundina staddur í Egyptalandi þar sem hann ræðir við leiðtoga þjóða í Arababandalaginu. Margar þjóðir í Miðausturlöndunum hafa þurft að glíma við hungursneyð vegna skorts á korni eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu.
„Þeir segja að allir þurfi að styðja bandalag byggt á reglum og reglurnar eru skrifaðar eftir því ástandi sem Vesturlönd vilja leysa að hverju sinni,“ sagði Lavrov sem vill meina að Vesturlönd sníði reglur sínar eftir hentugleika.
Leitar bandamanna í Afríku
Lavrov mun næst halda til Afríku og fara til Eþíópíu, Úganda og Lýðveldisins Kongó. Talið er að þar muni hann einnig halda því fram að Rússar hafi ekkert að gera með hungursneyðina sem löndin eru að glíma við þessa stundina.
Hann hefur lofað löndum í Afríku að ef þau skildu hjálpa Rússlandi í baráttu sinni gegn Vesturlöndunum þá ætli Rússar að hjálpa þeim að „afnýlenduvæðast“.
Helstu kaupendur rússnesks korns eru lönd í Afríku og Miðausturlöndunum og því vill Lavrov tryggja það að hann missi ekki trygga viðskiptavini.
Samningar skulu standa - í nokkra klukkutíma
Rússland skrifaði undir samning við Úkraínu, Tyrkland og Sameinuðu þjóðirnar fyrir helgi sem gerir Úkraínu kleift að halda kornútflutningi sínum áfram. Rússar hafa hingað til hindrað það að Úkraínumenn nái að flytja út korn sitt sem hefur valdið matvælakrísu um allan heim og miklum efnahagsvandræðum í Úkraínu.
Samningnum var fagnað ákaft af Úkraínumönnum og fleirum en Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði meðal annars að samningurinn væri það mikilvægasta sem hann hefur gert hjá samtökunum.
Rússar stóðu þó við loforð sitt í afar skamman tíma og vörpuðu sprengjum á höfn úkraínsku borgarinnar Odessa nokkrum klukkutímum eftir undirritun samningsins. Í höfninni voru nokkrar af korngeymslum úkraínsku þjóðarinnar.