Nokkur þúsund manns eru komin á Selfoss til að vera á unglingalandsmótinu en um 1200 krakkar á aldrinum 11 til 18 ára eru skráð í fjölmargar keppnisgreinar mótsins. Veður hefur verið stillt og gott. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands flutti hátíðarræðu við setningu mótsins í gærkvöldi og kom þar víða við.
„Hreyfing og keppni eru gulls í gildi en öllu má ofgera. Það bætir svo sannarlega ekki líkama og sál ef manni finnst stöðugt að maður sé ekki í nógu góðu formi. Ekki nógu grannur og að maður fari ekki eins oft og öll hin í fjallgöngur, hjólatúra og þríþrautir, að ég tali ekki um að maður hafi ekki hlaupið Laugaveginn eins og annar hver vinur á Fésbók. Öflug lýðheilsa snýst ekki um þetta, eilífan samanburð, eilíf álag og eilífa keppni við sjálfan sig og aðra,“ sagði Guðni.

Forsetinn vakti líka athygli á ósæmilegri hegðun einstakra foreldra þegar íþróttir eru annars vegar og tók dæmi þess efnis.
„Ég hef séð föður hrópa að dreng sínum að hlaupa upp kantinn, gefa fyrir, „Nei, takt‘ hann á!“ og allt saman eflaust í blóra við leiðsögn þjálfara, þar til sá stutti tók boltann, dúndraði honum upp í stúku og hrópaði: „Ert þú að spila eða ég?“