Líkanið gerir ráð fyrir að styrkur brennisteinstvíoxíðs í andrúmslofti við yfirborð verði á bilinu 2.600 til 9.000 míkrógrömm í rúmmetra. Gasið tekur svo stefnu aðeins vestur á bóginn þegar líða fer á kvöldið og nær yfir Garð og hugsanlega Reykjanesbæ, þó í minna magni en í Vogum.
Samkvæmt töflu á loftgæðavef Umhverfisstofnunar er svo mikið magn brennisteinstvíoxíðs í andrúmslofti óhollt fólki. Fólk, sér í lagi viðkvæmir, geti upplifað hósta, höfuðverk og ertingu í augum, nefi og koki.
Fólk er beðið um að forðast áreynslu utandyra, þeir sem hafi tök á haldi sig innandyra, reyni að anda eingöngu gegnum nef, loki gluggum og slökkvi á loftræstingu.
Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við Vísi að líkanið eigi það til að ofmeta magn koltvísýrings við yfirborð og því sé best að fylgjast með loftgæðum í rauntíma á vef Umhverfisstofnunar.
Gæti lagt yfir borgina
Í nótt og í fyrramálið verður suðvestanátt og því er höfuðborgarsvæði neðan vinds frá gosstöðvunum. Spálíkanið gerir ekki ráð fyrir að gas nái til jarðar en Elín Björk segir ekki ótilokað að það nái í borgina. Í versta falli yrði magnið þó langt undir heilsuverndarmörkum.
Þegar líða fer á daginn snýst vindur í hreina vestanátt og þá verða Þorlákshöfn, Eyrarbakki, Stokkseyri og Selfoss í hættu á að fá yfir sig gas. Í Þorlákshöfn eru 350 til 600 míkrógrömmum í rúmmetra spáð annað kvöld en annars staðar undir 350 míkrógrömmum.