Leigubílstjórar hafa gagnrýnt frumvarpið harðlega og formaður Bifreiðastjórafélagsins Frama og Bandalags íslenskra leigubifreiðstjóra segir beinlínis kynt undir ofbeldi í garð leigubílstjóra með lagabreytingunum. Sumir telja að með frumvarpinu sé verið að gefa starfsemi leigubílaaksturs frjálsa.
Leigubílstjórar segja að ekki hafi verið tekið mark á athugasemdum fagmanna, sem skjóti skökku við, enda hafi stéttin mesta þekkingu og reynslu í atvinnugreininni.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra kveðst hissa á gagnrýninni í samtali við fréttastofu. Hann segir að reynt hafi verið að koma til móts við sem flesta.
„Frumvarpið byggði nú á starfshópi sem þeir sátu í - gagnrýnin hefur ekki verið minni frá þeim sem vilja gefa hér allt frjálst. Hér er gerð tilraun til þess að fara bil beggja, einhvers konar málamiðlun, sem á að tryggja betri þjónustu,“ segir Sigurður Ingi.
Hann bætir við að frumvarpið eigi að gera það að verkum að fleiri geti ekið leigubílum: „Fleiri konur, fleiri sem eru ekki með fulla starfsgetu og svona opna á ýmsa nýjungar og tækni. Þannig að ég er svolítið hissa á þessari gagnrýni þeirra,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.