Leikur liðanna fór hægt af stað en eftir tæplega átta mínútna leik var staðan 1-1. Mörkum hrannaðist inn í kjölfarið er hraðinn jókst en liðin skiptust á forystunni framan af hálfleik.
Ísland var 11-10 yfir þegar um sex mínútur voru eftir af hálfleiknum en Holland skoraði fimm af síðustu sex mörkum hálfleiksins og leiddu með þriggja marka mun í hléi, 15-12.
Það tók Ísland rúmar fjórar mínútur að skora sitt fyrsta mark í síðari hálfleik en Holland var áfram með þriggja marka mun framan af. Íslenska liðið vann þó hægt og bítandi á og tókst að jafna 20-20 þegar síðari hálfleikur var rúmlega hálfnaður, og komst svo yfir 21-20 í kjölfarið.
Eftir það var leikurinn í járnum og spennan mikil er liðin skiptust á forystunni. Staðan var jöfn 26-26 þegar Ísland tók leikhlé þegar mínúta var eftir. Íslenska liðið missti boltann í sókninni, þær hollensku fóru á móti upp í sókn og skoruðu sigurmarkið þegar um tíu sekúndur voru eftir.
Íslandi tókst ekki að koma skoti á mark á þeim skamma tíma sem eftir var og urðu 27-26 úrslit leiksins, Hollandi í vil. Ísland er því úr leik á mótinu en Holland fer í undanúrslit.