Ovsyannikova stóð fyrir mótmælum í síðasta mánuði, þar sem hún hélt á skilti sem stóð á „(Rússlandsforseti Vladimír) Pútín er morðingi, hermenn hans eru fasistar. 352 börn hafa verið myrt (í Úkraínu). Hve mörg börn þurfa að deyja til að þið hættið?“
Lögreglan gerði húsleit á heimili Ovsyannikova í dag og var hún þá handtekin. Hún dvelur nú í fangaklefa á lögreglustöð í Moskvu.
Dmitry Zakhvatov, lögmaður Ovsyannikova, sagði í færslu á Telegram að ef Ocsyannikova verði sakfelld gæti hún átt yfir höfði sér tíu ára fangelsisdóm vegna nýrra laga sem refsa fólki fyrir yfirlýsingar gegn rússneska hernum en þau voru fest í gildi skömmu eftir innrás Rússa inn í Úkraínu.
Ítrekað sektuð fyrir að lítillækka herinn
Ovsyannikova varð heimsfræg í mars síðastliðnum þegar hún hélt uppi skilti í beinni útsendingu í rússnesku sjónvarpi sem stóð á „Stöðvið stríðið, ekki trúa áróðrinum, þeir eru að ljúga að ykkur hér.“
Fyrir þann gjörning var hún ákærð fyrir að lítillækka rússneska herinn og fékk sekt upp á 30 þúsund rúblur (sem jafngilti þá um 36 þúsund krónum).

Ovsyannikova vann sjálf á fréttastofunni en hætti í kjölfar mótmælanna og hefur síðan þá starfað sem aktívisti, staðið fyrir mótmælum og talað gegn stríðinu opinberlega. Þá var hún um tíma á flakki erlendis og fékk meðal annars vinnu hjá þýska blaðinu Die Welt.
Á undanförnum vikum hefur hún verið sektuð tvisvar til viðbótar fyrir að lítillækka rússneska herinn. Annars vegar var hún sektuð um 40 þúsund rúblur vegna ummæla um herinn í Facebook-færslu. Hins vegar var hún sektuð um 50 þúsund rúblur fyrir að lýsa yfir stuðningi við Ilya Yashin, rússneskan stjórnarandstöðuþingmann, sem var fangelsaður fyrir að dreifa falsupplýsingum um rússneska herinn.