Tæplega 230 þúsund störf á íslenskum vinnumarkaði eru mönnuð og rúmlega 12 þúsund störf laus. Á fyrsta ársfjórðungi var hlutfallið í 3,2 prósentum en er nú 5,1 prósent samkvæmt nýjum tölum Hagstofu.
Hlutfall lausra starfa er hæst í atvinnu tengdri heildsölu og verslun, samgöngum og geymslusvæðum og rekstri veitinga- og gististaða eða 9,2 prósent. Í landbúnaði, skógrækt og fiskveiðum var hlutfall lausra starfa 8,8 prósent.
Á sama tíma í fyrra voru laus störf um níu þúsund talsins og þeim því fjölgað um þrjú þúsund á milli ára. Fjöldi mannaðra starfa jókst einnig á milli ára eða um tæplega 22 þúsund.