Ferlið hefur gengið vel
„Þetta gengur náttúrulega bara ógeðslega vel,“ segir Manuela sem er að skipuleggja og halda utan um keppnina í sjöunda skipti. Hún segist verða „showaðari“ með hverju árinu sem líður en að spenna og stress fylgi því þó alltaf að koma að slíkri keppni.
Allar tilfinningarnar
„Það er allt að rúlla smurt fyrir sig og stelpurnar að standa sig ótrúlega vel, ég er svo stolt af þeim,“ segir Manuela sem er að leggja lokahönd á allt fyrir stóra kvöldið í kvöld. Hún segir stress, keppnisskap og allan tilfinningskalann vera í gangi í hópnum. „Það eru líka allir að horfast í augu við það að þetta sé að fara að vera búið, þannig þetta er algjör tilfinningabomba.
Við erum búnar að vera saman eins og lítil fjölskylda í gegnum allt ferlið og þjöppumst svo vel saman. Ég fer alltaf, það bregst ekki, að hágráta í krýningu. Maður tengist þessum stelpum sterkum böndum og þetta er búið að vera æðislegur tíma saman.“
Spennt fyrir dómaraviðtölunum
„Augnablikið sem kannski stendur upp úr fyrir mér í keppnunum eru dómaraviðtölin. Þau eru það sem flesta keppendur kvíðir mest fyrir og það er svo geggjað að sjá þær negla þessi viðtöl, eftir allan þennan undirbúning og stress. Þær gera þetta alltaf svo vel og ég fyllist af svo miklu stolti að það er eiginlega ekkert sem toppar það hjá mér,“ segir hún um sitt uppáhalds augnablik.
Keppnin í beinni
Keppnin verður sýnd í beinni útsendingu á Vísi og Stöð 2 Vísi.
Sextán stelpur keppast um titilinn í ár
Sextán stelpur keppast um titilinn en keppendur eru á aldrinum átján til tuttugu og átta ára. Alþjóðleg dómnefnd sér um að velja þá stúlku sem stendur uppi sem sigurvegari.
Sú sem sigrar mun keppa fyrir hönd Íslands í Miss Universe 2022 en einnig verður hægt að vinna aðra aukatitla líkt og vinsælasta stúlkan, Miss Eskimo Model, Miss ReebookFitness og Miss Max Factor.
„Ég er líka endalaust þakklát fyrir styrktaraðilana okkar og þá sem koma að því að láta drauma þeirra rætast,“ segir Manuela að lokum.

Keppendur eru sem áður segir sextán talsins en þær eru:
Jóna Vigdís Guðmundsdóttir, Kolbrún Perla Þórhallsdóttir, Hrafnhildur Haraldsdóttir, Elva Björk Jónsdóttir, Tinna Elísa Guðmundsdóttir, Sylwia Sienkiewicz, Ísabella Þorvaldsdóttir, Sunna Dögg Jónsdóttir, Elsa Rún Stefánsdóttir, Elísabet Tinna Haraldsdóttir, Maríanna Líf Swain, Erika Bjarkadóttir, Alexandra Andreyeva Tomasdottir, Karen Ósk Kjartansdóttir, Jónína Sigurðardóttir og Þorbjörg Kristinsdóttir.