Heimsókn Pelosi til Taívan olli miklu fjaðrafoki og kölluðu Kínverjar heimsóknina óboðlegt inngrip í innanríkismál landsins og aðför gegn meginreglunni um eitt sameinað Kína. Kínverjar hafa haldið heræfingar í Taívansundi og utanríkisráðherra eyríkisins kveðst fullviss um að Kínverjar undirbúi innrás inn í landið.
Samkvæmt yfirlýsingu bandaríska sjóhersins sigldu tvö herskip í gegnum sundið í dag og er það til marks um vilja Bandaríkjamanna til að halda uppi friði á svæðinu. Engin alþjóðalög hafi verið brotin, að sögn hersins, enda ekki siglt í gegnum lögsögu nokkurs ríkis.
Kínverjar brugðust hart við og segjast hafa verið reiðubúnir til að svara hverri ögrun sjóhersins af fullu afli. Þeir hafa nú efnt til heræfinga á svæðinu umhverfis Taívan. Taívanar hafa svarað í sömu mynt og munu halda eigin heræfingar.
Taívan hefur verið sjálfstætt ríki frá árinu 1949, í kjölfar þess að Chiang Kai-shek, þáverandi leiðtogi Lýðveldisins Kína flúði þangað eftir sigur Kommúnistaflokksins á meginlandinu. Bandaríkjamenn hafa ekki opinberlega viðurkennt sjálfstæði Taívan en segjast styðja rétt landsins til að ákvarða eigin framtíð.