Eiríkur mun m.a. hafa umsjón með kynningar-, fræðslu- og útgáfumálum Hugverkastofunnar, sinna fjölmiðlasamskiptum og samfélagsmiðlum, ritstýra ársskýrslu og leiða vinnu við gerð samskiptaáætlunar, að því er segir í tilkynningu frá Hugverkastofunni.
Eiríkur hefur undanfarin sjö ár leitt samskiptasvið Háskólans í Reykjavík. Frá 2010 til 2014 var hann upplýsingafulltrúi og vörumerkjastjóri ORF Líftækni, sat í framkvæmdastjórn og bar um tíma ábyrgð á hugverkavernd fyrirtækisins. Þar áður var Eiríkur ráðgjafi hjá KOM almannatengslum og kynningarstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Hann lauk meistaragráðu í sameindalíffræði frá Háskóla Íslands 1997, BSc gráðu í líffræði frá sama skóla 1994 og diplóma til kennsluréttinda frá Háskólanum Í Reykjavík 2009.
Hlutverk Hugverkastofunnar er að fara með málefni varðandi einkaleyfi, vörumerki, hönnunarvernd, byggðarmerki og önnur hliðstæð réttindi sem kveðið er á um í lögum, reglugerðum og alþjóðasamningum um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar. Stofnunin veitir einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum upplýsingar og ráðgjöf varðandi hugverkaréttindi í iðnaði og vinnur að því að ný tækni og þekking sem felst í skráðum hugverkaréttindum verði aðgengileg almenningi. Hugverkastofan heyrir undir nýtt ráðuneyti háskóla, nýsköpunar og iðnaðar.