Einræðisherrann sagðist ekki ætla sér að setjast aftur við samningaborðið um kjarnorkuvopnin en þing Norður-Kóreu hefur samþykkt lög um að Kim megi beita kjarnorkuvopnum ríkisins í fyrirbyggjandi árásum.
Yonhap fréttaveitan frá Suður-Kóreu hefur eftir einræðisherranum að í stað þessa ð gefa frá sér kjarnorkuvopnin, ætli hann að auka getu ríkisins til kjarnorkuárása.
Lög þessi, sem eru í raun formlegs eðlis, þar sem Kim getur að mestu gert eins og honum sýnist, segja til um við hvaða skilyrði hann má beita kjarnorkuvopnum. Þau segja til um að hann megi beita kjarnorkuvopnum sé stjórn hans á Norður-Kóreu í hættu.
Sé gerð árás á Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu, á her ríkisins samkvæmt lögunum sjálfkrafa að gera kjarnorkuárás á ríkið sem réðst á Pyongyang, samkvæmt AP fréttaveitunni.
Lögin segja einnig að Norður-Kórea getur beitt kjarnorkuvopnum í tilfellum ótilgreindra hamfara sem ógni leiðtogum og þegnum ríkisins.
Í ræðu sinni á þingi Norður-Kóreu í morgun, sem fjallaði að miklu leyti um áðurnefndar lagabreytingar, gagnrýndi Kim nágranna sína í Suður-Kóreu fyrir ætlanir þeirra um að auka getu til að gera árásir með hefðbundnum en langdrægum vopnum. Kim lýsti þeim ætlunum sem ögrandi og sagði að þær myndu auka spennu á Kóreuskaganum.
Alvarlegri hótanir
Síðustu viðræður milli embættismanna frá Norður-Kóreu og Bandaríkjunum áttu sér stað árið 2019 og er ekkert útlit fyrir frekari viðræður. Frá 2019 hafa Norður-Kóreumenn orðið sífellt vígreifari í orðum sínum og hótunum í garð Bandaríkjanna og annarra nágranna sinna.
Á þessum tíma hafa ítrekaðar tilraunir verið gerðar í Norður-Kóreu með langdrægar eldflaugar en þær eru í trássi við samþykktir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Ekki hefur verið gerð tilraun með kjarnorkuvopn frá árinu 2017.