September er oft mánuður þar sem við virðumst vera með mjög marga bolta á lofti og töluvert vinna og orka sem fer í að halda utan um allt skipulagið og láta hlutina ganga:
Heima fyrir og í vinnu.
Allir nánast of seinir á morgnana, jafnvel frekar úrillir. Erum að ná áttum með skutl-rútínuna hjá krökkunum yfir vikuna. Skiptingu foreldra hver skutlar á morgnana eða sækir.
Síðan er það vinnan. Reyna að mæta á réttum tíma. Ná utan um verkefnin sem þar eru farin á fullt. Reyna að vera ekki of lengi að klára þar þannig að það að sækja á leikskólann eða fara út í búð verði ekki allt of mikið á síðustu stundu.
Svo ekki sé talað um að ná þessum tímum í ræktinni sem við ætluðum að setja í gang eftir sumarfrí.
Og síðan eru vinahittingar og matarboð framundan.
Kannist þið við þetta?
Við gátum þetta síðasta vetur og munum auðvitað geta þetta allt saman aftur í vetur. En til þess að stytta þennan árlega aðlögunartíma á haustin þar sem við eigum fullt í fangi með að ná utan um skipulagið á ný og koma öllu og öllum aftur í rútínu, eru hér þrjú atriði sem gott er að hafa í forgangi:
1. Háttatíminn: Börn og fullorðnir!
Auðvitað er sumarið oft sá tími sem að háttatíminn riðlast aðeins hjá öllum krökkum og unglingum. Sem er bara allt í lagi.
Hér erum við þó ekki aðeins að tala um að koma svefninum í gott horf hjá krökkunum, heldur að horfa svolítið á það hver æskilegur háttatími er fyrir alla heima fyrir: Börn og fullorðna.
Því dagsformið okkar í vinnunni og/eða getan til að vera afkastamikil og eiga auðvelt með yfirsýn og skipulag byggir að miklu leyti á því að við séum úthvíld.
Það sama á auðvitað við um börn og unglinga sem þurfa svo sannarlega á sínum svefni að halda líka.
Verkefni #1 er því: Að koma svefninum hjá öllum í gott horf.
#2: Matmálstímar: Hver ætlar að sjá um hvað og hvenær?
Æi það er svo notalegt á sumrin að skella á grillið ef sólin skín, borða á aðeins öðruvísi tímum eða stöðum þegar við erum í fríi og svo framvegis.
En nú er bara komið að því að koma öllu aftur í rútínu. Þar á meðal matmálstímum og matmálsvenjum.
Þetta þýðir skipulag í innkaupum og hver ætlar að elda hvern dag og hvað. Ágætis leið til að skipuleggja innkaup getur verið að stökkva í búðina þegar krakkarnir eru á æfingum og nýta þannig skutl-ferðirnar. Eins að vera búin að plana matseðilinn svolítið fyrirfram.
Og til að fá alla til að ganga í takt er gott að leggja áherslu á að allir fjölskyldumeðlimir setjist niður og borði kvöldmat saman. Líka unglingarnir því það að vera með matmálstíma í föstum skorðum, getur hjálpað til við að koma öðrum atriðum í rútínu líka, sbr. háttatími, svefn og fleira.
#3: Vertu fyrirmynd: Verum öguð og jákvæð
Í stað þess að boða reglur og bönn er gott að koma öllum í rútínu með því að leggja áherslu á að vera góðar fyrirmyndir sjálf.
Til dæmis að ná góðum svefni, vera jákvæð og hress á morgnana og ekki á síðustu stundu sjálf.
Stunda hreyfingu og hvetja krakkana til að leika og gera skemmtilega hluti frekar en að vera mikið við skjáinn.
Nýta tímann vel og skipulega í vinnunni, alveg eins og krakkarnir gera með skóla, heimavinnu og frístundir.
Horfa á markmiðið um haust- og vetrarrútínuna eins og hvert annað verkefni sem þú ætlar að innleiða með góðum árangri. Hvernig myndir þú til dæmis skipuleggja haustrútínuna ef þetta væri verkefni í vinnunni?
Að skapa gott jafnvægi á milli heimilis og vinnu skiptir miklu máli. En þá þarf ekkert síður að horfa á hvernig hlutirnir ganga heima fyrir því þegar það gengur vel þar. Að sama skapi skiptir máli að skilja vinnuna eftir í vinnunni þegar vinnudegi lýkur. Og einbeita sér þá að því sem skiptir máli fyrir heimili og fjölskyldu.