Viðskipti innlent

Besta rekstrarár frá opnun Hörpu

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Tónlistarhúsið Harpa var opnað árið 2011.
Tónlistarhúsið Harpa var opnað árið 2011. Vísir/Vilhelm

Árið 2024 var besta rekstrarár frá opnun tónlistarhússins Hörpu. Aldrei hafa jafn margir miðar selst á viðburði. Aðalfundur Hörpu fór fram í dag þar sem uppgjör félagsins var kynnt auk ársskýrslu.

Rekstrarhagnaður Hörpu fyrir fjármagnsliði og afskriftir jókst um rúm 52 prósent eða úr 197 milljónum króna í rúmar 300 milljónir króna. Heildarvelta miðasölu fyrir viðburðahöld í Hörpu nam 1.863 milljónum króna. Þá voru haldnir 1411 viðburðir yfir árið samanborið við tæplega fjórtán hundruð árið áður, rétt rúmlega fimm hundruð þeirra voru ráðstefnutengdir viðburðir. 

„Við erum virkilega ánægð með þessa áframhaldandi bætingu í rekstrinum sem náðist með samstilltum metnaði alls starfsfólks Hörpu. Árið er það besta frá upphafi og fyrir það ber að þakka. Fjöldi og fjölbreytni viðburða, öflug miðasala og sterk bókunarstaða fyrir komandi misseri sýna skýrt að Harpa er miðpunktur menningarlífs og alþjóðlegra viðburða á Íslandi,“ segir Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, í tilkynningu.

Á fundinum fór einnig fram stjórnarkjör. Bæði Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir var endurkjörin sem formaður og Árni Geir Pálsson einnig endurkjörin í stjórnina. Koma þau Guðrún Erla Jónsdóttir, Ólöf Kristín Sigurðardóttir og Pétur Magnússon ný inn í stjórn félagsins. Kjörnir varamenn eru Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir og Jóhanna Margrét Gísladóttir.

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, formaður stjórnarinnar, kynntu niðurstöður skýrslu um hagræn áhrif af starfsemi Hörpu. Þar kemur fram að bein, óbein og afleidd efnahagsleg áhrif af starfseminni séu um tíu milljarðar króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×