Til stendur að leggja rafstreng milli Hellu og Hvolsvallar og kannar nú sveitarstjórnin hvort hægt sé að slá tvær flugur í einu höggi, með því að koma hjólastíg upp í leiðinni. Verkefnið er unnið í samvinnu við nágrannasveitarfélagið Rangárþing eystra.
Fram kemur í fundargerð sveitarstjórnarinnar að Vegagerðin hyggist styrkja verkefnið, að minnsta kosti um tvö hundruð milljónir - hundrað árið 2025 og aðrar hundrað árið 2026. Skilyrði fyrir styrknum er að sveitarfélag borgi helming á móti Vegagerðinni í framkvæmdunum.
Nú þurfa nefndarmenn sveitarstjórna að taka afstöðu til þess hvort halda skuli áfram með verkefnið; kanna samninga um afnot eða kaup á landi, setja hönnun á hjólastíg í gang og koma verkinu í framkvæmd. Búið er að kynna verkefnið óformlega fyrir flestum landeigendum á leiðinni en líkur eru á að kaupa þurfi eitthvað land, sem stígurinn kæmi til með að liggja yfir.