Í morgun sagði Morgunblaðið frá því að mennirnir hafi beint sjónum sínum að árshátíð lögreglumanna sem fer fram laugardaginn 1. október. Mennirnir voru handteknir á þriðjudaginn í umfangsmiklum aðgerðum lögreglu.
Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna, segir að ekki sé búið að fresta árshátíðinni þrátt fyrir fregnirnar. Hann hafði ekki heyrt af mögulegri árás á árshátíðinni fyrr en blaðamaður Morgunblaðsins hringdi í hann í gær.
Skelfilegt ef satt reynist
„Þetta er alveg ótrúlegar fréttir ef þeir ætluðu að ráðast á lögreglumenn og maka þeirra í frítíma. Það er algjörlega skelfilegt að hugsa til þess,“ segir Fjölnir í samtali við fréttastofu. Hann bendir á að enn sé rúm vika í árshátíðina og því enn mögulegt að henni verði frestað.
Í gær var greindi lögregla frá því að búið væri að ná utan um málið og því hefði almenningur ekkert að óttast. Fjölnir segir að þeir lögreglumenn sem hann hefur heyrt í í gær og í dag séu mjög hissa.
„Ég held að allri séu svolítið hissa á því að þessi dagur skyldi koma, að það sé hryðjuverkaógn á Íslandi. Þetta er svolítið árás á þjóðfélagsgerðina okkar. Ég held að fólk sé að spá í því. Hvort þurfi að breyta einhverju,“ segir Fjölnir.
Í reglulegri skotþjálfun
Á síðustu árum hefur þjálfun lögreglumanna verið tekin í gegn. Fjölnir segir lögreglumenn hafa fengið einhverja þjálfun í hvernig eigi að bregðast við hryðjuverkaógn en ekki setið almenn námskeið um málið.
„Við erum í reglulegri skotþjálfun, lögreglumönnum er skipt í þjálfunarhópa sem æfa mismikið. Það er búið að taka þjálfun lögreglumanna mikið í gegn en það þarf kannski að bæta þessu við,“ segir Fjölnir.
Um er að ræða árshátíð Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem fram fer laugardaginn 1. október. Veislustjórar eru skemmtikraftarnir Auddi og Steindi og Hreimur Örn Heimisson á að sjá um tónlistarflutning.