Árni virtist ekki kippa sér mikið upp við það að vera að keppa við þrjá andstæðinga sem unnið hafa Íslandsmeistaratitla, í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport, og átti meðal annars tilþrif kvöldsins þó að hann hafi að lokum þurft að sætta sig við tap í leikjunum þremur.
Bestu tilþrifin sýndi Árni þegar hann jafnaði metin í 1-1 gegn Matthíasi Erni Friðrikssyni, Íslandsmeistara síðustu þriggja ára.
Árni átti eftir 132 til að komast niður í núllið og byrjaði á að kasta í ytri miðjuhring píluspjaldsins, til að fara niður um 25 stig. Hann hitti svo í þrefaldan nítján, og þar með stóðu eftir 50 punktar sem hann gat náð með því að hitta akkúrat í miðja skífuna. Það gerði Árni eins og sjá má hér að neðan.
Þetta reyndist hæsta útskot kvöldsins en Árni varð að lokum að sætta sig við 3-2 tap gegn Matthíasi, eftir að hafa tapað þremur leggjum naumlega. Hann tapaði einnig gegn Vitor Charrua og Hallgrími Egilssyni, báðum leikjum 3-1, en það var Vitor sem stóð uppi sem sigurvegari kvöldsins, sem tryggði honum sæti á úrslitakvöldinu í desember.