Frá því að umræða hófst fyrir tæpum þremur vikum um meinta niðrandi og framkomu karla í Flokki fólksins á Akureyri gegn flokkssystrum sínum, hefur ýmislegt verð látið flakka og ásakanir um svik og pretti gengið á bága bóga.
Nú má segja að málið sé komið á endastöð - stjórn flokksins hefur sagt því lokið af sinni hálfu - og mennirnir tveir sem ásakanirnar beinast gegn eru hættir í flokknum, þeir Brynjólfur Ingvarsson og Jón Hjaltason. En þeir félagar eru hvergi nærri hættir í pólitík; nú ætla þeir að sitja áfram - óháðir.
„Það er niðurstaðan og við ætlum að þétta okkar raðir, við erum með okkar varamenn og þeir eru reiðubúnir og hafa verið að mæta fyrir mig. Við ætlum að reyna að fá til liðs við okkur bæði fólk sem hefur verið á listanum og hefur staðið með okkur og aðra og gera þetta að svolítilli hreyfingu sem heldur áfram að berjast fyrir kjörum fólks sem stendur höllum fæti í lífinu,“ segir Jón í samtali við fréttastofu.
Jón mun því áfram þiggja laun sem varabæjarfulltrúi í tveimur nefndum og Brynjólfur mun þiggja laun sem bæjarfulltrúi.
„Í okkar augum snýst þetta ekki um launin. Það er raunar allt annað og við erum alveg til viðræðu um að gefa þetta eftir ef þetta er allt saman dregið til baka, því þessar ásakanir eru algerlega úr lausu lofti gripnar,“ segir Jón.
Þá þyrftu konurnar og flokkurinn þó að sögn Jóns að biðjast opinberlega afsökunar á ásökunum. Jón bætir því við að hann furðar sig á ákvörðun stjórnar Flokks fólksins að láta ekki verða af óháðri rannsókn á málinu, eins og til stóð. Þeir hafi lýst sig fúsa að taka fullan þátt og afhenda öll gögn en allt hafi komið fyrir ekki.