Pines skoraði eina mark leiksins, en það gerði hann í rangt mark. Hann kom heimamönnum yfir stuttu fyrir hálfleikshléið og staðan því 1-0 þegar gengið var til búningsherbergja.
Ekki náði Pines að bæta upp fyrir mistök sín í síðari hálfleik, en þegar um tíu mínútur voru til leiksloka gerðist hann brotlegur innan eigin vítateigs og fékk að launum að líta beint rautt spjald.
Joaquin Torres steig á punktinn fyrir CF Montreal en misnotaði spyrnuna. Kannski var það örlítil sárabót fyrir Pines, en þrátt fyrir það nokkuð ljóst að leikmaðurinn hefur átt betri leiki.
Guðlaugur Victor var í byrjunarliði DC United og lék tæpar 70 mínútur í hægri bakverði. Liðið situr á botni Austurdeildarinnar með 27 stig þegar liðin eiga aðeins einn leik eftir af tímabilinu áður en úrslitakeppnin tekur við.