Flugvél Air France var á leið frá Rio de Janeiro í Brasilíu til Parísar í Frakklandi þann 1. júní 2009. Flugvélin hrapaði hins vegar í Atlantshafi í óveðri. 228 fórust, þar af einn Íslendingur. Mikil leit var gerð að svörtu kössum flugvélarinnar, sem fundust. Hljóðupptökur þar vörpuðu ljósi á að flugmenn vélarinnar virðast ekki hafa brugðist við viðvörunum um ofris.
Þá er einnig talið að ís hafi myndast á hraðaskynjurum flugvélarinnar sem truflað hafi mælingar sem bárust flugmönnum og flugkerfi vélarinnar. Gögn úr svarta kassanum gefa til kynna að flugvélin hafi fallið úr 11,500 metra hæð á fjórum mínútum og 24 sekúndum. Viðvörun um ofris hljóðaði einnig 75 sinnum í flugstjórnarklefanum.

Aðstandendur farþeganna sem létust höfðuðu mál gegn Airbus og Air France, en fulltrúar þeirra neituðu sök við réttarhöldin í dag. Airbus telur að mistök flugmanna hafi verið orsök flugslyssins. Air France bendir hins vegar á Airbus og hönnun viðvörunakerfa sem hafi verið ruglandi fyrir flugmennina.
Dómari í málinu hóf réttarhöldin á því að lesa upp nöfn þeirra 228 sem fórust í slysinu. Þegar Anne Rigail, forstjóri Air France, og Guillaume Faury, forstjóri Airbus, hófu mál sitt við réttarhöldin voru hróp og köll gerð að þeim.
„Skammist ykkar“ og „Of lítið of seint,“ var kallað að þeim.
Réttarhöldin munu standa yfir næstu níu vikurnar.