Ísland á möguleika á að vinna sér inn sæti á HM í fyrsta sinn í sögunni og Portúgal er í sömu stöðu.
Full flugvél af Íslendingum er núna á leið til Porto frá Keflavík, eða um 150 manns, en ljóst er að Íslendingar verða þó í miklum minnihluta á vellinum í kvöld.
Leikurinn fer fram á heimavelli Paços de Ferreira, í samnefndum bæ rétt fyrir utan Porto. Leikvangurinn, sem nefnist Estádio da Mata Real, tekur rúmlega 9.000 manns í sæti og því fer þar af leiðandi fjarri að uppselt sé á leikinn mikilvæga, miðað við þær upplýsingar sem KSÍ fékk frá portúgalska knattspyrnusambandinu.
Stelpurnar í íslenska landsliðinu æfðu á Estádio da Mata Real síðdegis í gær. Grasið á vellinum var ansi flekkótt að lit en völlurinn leit þó ágætlega út. Íslenska liðið snýr svo aftur á völlinn núna síðdegis og flautað verður til leiks klukkan 18 að staðartíma, eða klukkan 17 að íslenskum tíma.
Ísland og Portúgal mætast klukkan 17, að íslenskum tíma, í úrslitaleik um sæti á HM. Fjallað verður ítarlega um leikinn á Vísi í allan dag.