Hailey er, eins og frægt er, eiginkona poppstjörnunnar Justins Bieber. Parið gifti sig árið 2018, sama ár og Justin sleit sambandi sínu við tónlistarkonuna Selenu Gomez sem hafði staðið yfir í átta ár með hléum.
Aðdáendur hafa verið sannfærðir um að Hailey hafi stolið Justin af Selenu. Þá hefur þeim stöllum gjarnan verið stillt upp á móti hvor annarri og þær sagðar óvinkonur, þrátt fyrir að þær hafi báðar ítrekað neitað fyrir það.
Það vakti því mikla athygli þegar Selena og Hailey voru báðar á gestalista árlegs galakvölds Kvikmyndaakademíusafnsins í Los Angeles á laugardaginn. Þær nýttu tækifærið til þess að grafa hina ímynduðu stríðsöxi í eitt skipti fyrir öll með vinalegri myndatöku á viðburðinum.
Það var ljósmyndarinn Tyrell Hamton sem náði þessu sögulega augnabliki á filmu. Selena og Hailey stóðu þétt upp við hvor aðra og brostu sínu breiðasta. Á einni myndinni héldu þær utan um hvor aðra og virtust perluvinkonur.
Stutt er síðan Hailey Bieber var gestur í hlaðvarpinu Call Her Daddy þar sem hún var spurð út í upphaf hjónabandsins og hvort hún hafi í raun „stolið“ Justin. Í þættinum vísaði Hailey þeim ásökunum alfarið á bug og sagðist ekki á neinum tímapunkti hafa verið með Justin á meðan hann hafi verið í öðru sambandi.