Rapp fullyrðir að Spacey hafi reynt að misnota sig kynferðislega eftir samkvæmi þegar hann var sjálfur fjórtán ára en Spacey var 26 ára árið 1986. Hvorugur þeirra var þekktur leikari á þeim tíma. Rapp krafðist fjörutíu milljóna dollara, jafnvirði meira en 5,8 milljarða íslenskra króna, í miskabætur í einkamálinu sem hann höfðaði gegn Spacey.
Það tók kviðdóm aðeins klukkustund að komast að þeirri niðurstöðu að lögmenn Rapp hefðu ekki fært nægjanlegar sönnur fyrir ásökununum og sýkna Spacey, að sögn AP-fréttastofunnar.
Hvorki Spacey né Rapp tjáðu sig beint við fjölmiðla eftir að dómur féll. Lögmenn Spacey fögnuðu því að kviðdómurinn hefði séð í gegnum „falskar ásakanir“ á hendur honum en lögmaður Rapp fullyrti í lokamálflutningsræðu sinni að Spacey hefði borið ljúgvitni.
Í vitnastúku sagði Spacey kviðdómendum að atvikið hefði aldrei átt sér stað og að hann hefði aldrei laðast að manneskju sem væri fjórtán ára gömul.
Fjöldi annarra karlmanni stigu fram og sökuðu Spacey um áreitni og ofbeldi eftir að Rapp sagði frá sinni reynslu. Dómsmál gegn Spacey vegna ásakana um að hann hafi brotið á þremur karlmönnum stendur nú yfir í London í Bretlandi.
Þá staðfesti dómari í Los Angeles nýlega úrskurð gerðardómara að Spacey þyrfti að greiða framleiðendum þáttaraðarinnar „Spilaborgar“ meira en þrjátíu milljónir dollara, jafnvirði um 4,5 milljarða íslenskra króna. Leikarinn var talinn hafa brotið samning sinn með því að áreita starfsfólk kynferðislega.