Umfjöllun: ÍBV - FH 28-29 | FH-ingar fyrstir til að fara með stig úr Eyjum Ingvi Þór Sæmundsson skrifar 30. október 2022 15:20 Einar Bragi Aðalsteinsson skoraði sex mörk þegar FH vann ÍBV í Vestmannaeyjum. vísir/hulda margrét FH vann sinn fyrsta leik í Vestmannaeyjum síðan 2018 þegar liðið lagði ÍBV að velli, 28-29, í 7. umferð Olís-deildar karla í dag. FH-ingar urðu þar með fyrsta liðið á tímabilinu til að fara með stig úr Eyjum. Þetta var fjórði sigur FH í deild og bikar í röð. Með sigrinum komst FH upp fyrir ÍBV í 3. sæti deildarinnar. Eyjamenn hafa nú tapað tveimur leikjum í röð. Í hálfleik benti ekkert til annars en ÍBV myndi vinna fjórða heimaleikinn á tímabilinu í jafn mörgum tilraunum, enda 16-12 yfir og með góð tök á leiknum. Rúnari Kárasyni héldu engin bönd en hann skoraði sex mörk úr sex skotum í fyrri hálfleik. FH-ingar sneru taflinu sér í vil í seinni hálfleik þar sem þeir léku afar vel. Phil Döhler hrökk í gang, vörnin var öflug og sóknin miklu skilvirkari en í fyrri hálfleiknum. Elmar Erlingsson jafnaði í 27-27 en Einar Örn Sindrason kom FH svo yfir með marki úr vítakasti, 27-28. Í næstu sókn ÍBV varði Döhler frá Rúnari og Einar Bragi Aðalsteinsson kláraði leikinn í kjölfarið. Arnór Viðarsson skoraði síðasta mark leiksins sem lauk með eins marks sigri FH, 28-29. Einar Bragi og Einar Örn skoruðu sex mörk hvor fyrir FH og Döhler varði sautján skot (38 prósent). Ásbjörn Friðriksson kom ekkert við sögu í leiknum fyrir utan að koma þrisvar sinnum inn á til að taka vítaköst. Tvö af þremur vítum sem hann tók fóru í súginn. Rúnar skoraði ellefu mörk fyrir ÍBV (og nýtti fyrstu tíu skotin sín í leiknum) og Kári Kristján Kristjánsson fimm. Petar Jokanovic varði sextán skot, eða 36 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig. ÍBV náði strax frumkvæðinu og var yfir allan fyrri hálfleikinn. Vörn heimamanna var sterk, Petar varði ágætlega og í sókninni héldu Rúnari engin bönd. Allt annað var að sjá til FH í upphafi seinni hálfleiks og eftir níu mínútur í honum jafnaði Einar Örn, 19-19. Hann átti erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik en var frábær í þeim seinni. ÍBV komst tveimur mörkum yfir, 23-21, en FH jafnaði jafn harðan. Mikið gekk á um miðbik seinni hálfleiks og tveir FH-ingar, Jóhann Birgir Ingvarsson og Ágúst Birgisson, fengu rautt spjald með tveggja mínútna millibili. Liðin héldust í hendur næstu mínútur en FH-ingar átti einn gír eftir á lokakaflanum. Þeir gerðu betur gegn Rúnari í vörninni og Einararnir drógu sóknarvagninn. Jóhannes Berg Andrason átti einnig góða innkomu og skoraði þrjú mörk. Eftir að hafa verið mjög rólegur í seinni hálfleik vaknaði Petar til lífsins undir lokin en sóknin fylgdi ekki með og FH landaði sterkum sigri, 28-29. Olís-deild karla ÍBV FH
FH vann sinn fyrsta leik í Vestmannaeyjum síðan 2018 þegar liðið lagði ÍBV að velli, 28-29, í 7. umferð Olís-deildar karla í dag. FH-ingar urðu þar með fyrsta liðið á tímabilinu til að fara með stig úr Eyjum. Þetta var fjórði sigur FH í deild og bikar í röð. Með sigrinum komst FH upp fyrir ÍBV í 3. sæti deildarinnar. Eyjamenn hafa nú tapað tveimur leikjum í röð. Í hálfleik benti ekkert til annars en ÍBV myndi vinna fjórða heimaleikinn á tímabilinu í jafn mörgum tilraunum, enda 16-12 yfir og með góð tök á leiknum. Rúnari Kárasyni héldu engin bönd en hann skoraði sex mörk úr sex skotum í fyrri hálfleik. FH-ingar sneru taflinu sér í vil í seinni hálfleik þar sem þeir léku afar vel. Phil Döhler hrökk í gang, vörnin var öflug og sóknin miklu skilvirkari en í fyrri hálfleiknum. Elmar Erlingsson jafnaði í 27-27 en Einar Örn Sindrason kom FH svo yfir með marki úr vítakasti, 27-28. Í næstu sókn ÍBV varði Döhler frá Rúnari og Einar Bragi Aðalsteinsson kláraði leikinn í kjölfarið. Arnór Viðarsson skoraði síðasta mark leiksins sem lauk með eins marks sigri FH, 28-29. Einar Bragi og Einar Örn skoruðu sex mörk hvor fyrir FH og Döhler varði sautján skot (38 prósent). Ásbjörn Friðriksson kom ekkert við sögu í leiknum fyrir utan að koma þrisvar sinnum inn á til að taka vítaköst. Tvö af þremur vítum sem hann tók fóru í súginn. Rúnar skoraði ellefu mörk fyrir ÍBV (og nýtti fyrstu tíu skotin sín í leiknum) og Kári Kristján Kristjánsson fimm. Petar Jokanovic varði sextán skot, eða 36 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig. ÍBV náði strax frumkvæðinu og var yfir allan fyrri hálfleikinn. Vörn heimamanna var sterk, Petar varði ágætlega og í sókninni héldu Rúnari engin bönd. Allt annað var að sjá til FH í upphafi seinni hálfleiks og eftir níu mínútur í honum jafnaði Einar Örn, 19-19. Hann átti erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik en var frábær í þeim seinni. ÍBV komst tveimur mörkum yfir, 23-21, en FH jafnaði jafn harðan. Mikið gekk á um miðbik seinni hálfleiks og tveir FH-ingar, Jóhann Birgir Ingvarsson og Ágúst Birgisson, fengu rautt spjald með tveggja mínútna millibili. Liðin héldust í hendur næstu mínútur en FH-ingar átti einn gír eftir á lokakaflanum. Þeir gerðu betur gegn Rúnari í vörninni og Einararnir drógu sóknarvagninn. Jóhannes Berg Andrason átti einnig góða innkomu og skoraði þrjú mörk. Eftir að hafa verið mjög rólegur í seinni hálfleik vaknaði Petar til lífsins undir lokin en sóknin fylgdi ekki með og FH landaði sterkum sigri, 28-29.
Uppgjörið: Ísland - Úkraína 27-24 | Sögulegur sigur og stelpurnar okkar á leið í hreinan úrslitaleik