Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
Ég vakna satt að segja oftast fyrir allar aldir og er kannski byrjaður að drekka minn kaffibolla og skrifa eitthvað í tölvuna fyrir klukkan ex á morgnana.
Mér virðist lífsins ómögulegt orðið að sofa út og hafna því alfarið að það hafi eitthvað með gráu hárin og aldurinn að gera.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Fyrsti kaffibollinn er ákaflega heilög stund. Setja á rólega tónlist og koma deginum af stað. Gott að eiga notalega stund með sjálfum sér áður en börn eru vakin og kapphlaupið um að komast úr húsi hefst.“
Saknar þú þess að hitta þríeykið reglulega á fundum eins og um tíma var?
„Auðvitað var gaman og gagnlegt að vera í reglulegum samskiptum við þetta eðalfólk, en ég sakna þess ekki þegar faraldurinn stóð sem hæst og samfélagið var nánast stopp um langa hríð.
Þetta var samt afar lærdómsríkur tími fyrir okkur öll og kenndi okkur að meta hversdagslega hluti sem við töldum áður sjálfsagða.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Ég er í bókaskrifum og að vinna að handriti ásamt ýmsum tilfallandi verkefnum sem koma upp. Það er einhvern veginn alltaf nóg að gera og fjalla um.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
Margir uppgötvuðu kosti fjarvinnu í faraldrinum, en ég er einn þeirra sem get unnið hvar sem er og þarf bara mína gömlu fartölvu og síma.
En þá er lykilatriði að sitja yfir verkefnum sínum ákveðið lengi í einu og eyða ekki dýrmætum tíma í eitthvað gagnslaust sjónvarps- eða netráp.
Það þarf að beita sig aga og halda sér að verki.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Í seinni tíð reyni ég að sofna ekki löngu eftir miðnætti, en ég er líklega B-týpa að eðlisfari og get alveg vakað allt of lengi yfir góðri bók eða einhverju viðfangsefni og hreinlega gleymt mér.
Þess vegna skulda ég sjálfum mér oft talsverðan svefn og hef undanfarið reynt að koma betra lagi á þau mál.
Það skiptir víst máli, er mér sagt.“