Þetta kemur fram í skriflegum svörum Þjóðskrár við fyrirspurn fréttastofu.
Eins og sakir standa eru 128 einstaklingar skráðir „kynsegin/annað“ í Þjóðskrá, 112 fullorðnir og 16 börn.
Af fullorðna fólkinu voru 84 áður skráðir „kona“ og 21 „karl“ en kyn sjö var óþekkt fyrir skráningu.
Þá vekur athygli að af börnunum sextán voru fimmtán áður skráð „stúlka“ en enginn „drengur“. Kyn eins barnanna var áður skráð „óþekkt“.
Þjóðskrá opnaði fyrir möguleikan á skráningunni „kynsegin/annað“ í byrjun árs 2021 en kveðið var á um heimild til hlutlausrar skráningar kyns með lögum um kynrænt sjálfræði, sem tóku gildi 6. júlí 2019.
Í lögunum segir meðal annars að opinberum aðilum og einkaaðilum sem skrá kyn beri að gera ráð fyrir hlutlausri skráningu, til dæmis á skilríkjum, eyðublöðum og í gagnasöfnum.