Comirnaty er bóluefni Pfizer og BioNTech en Spikevax er framleitt af Moderna.
Á vef Lyfjastofnunar segir að um sé að ræða „miklar tíðablæðingar“ þegar blæðingar standa lengur eða magn tíðablóðs er meira en vanalega og þær hafa áhrif á lífsgæði einstaklingsins. Tilkynningar hafi borist um slík tilfelli eftir grunn- og örvunarbólusetningar með bæði Comirnaty og Spikevax.
„Til að meta þetta öryggisboð fór PRAC yfir gögn úr klínískum rannsóknum, aukaverkanatilkynningar úr Eudravigilance gagnagrunninum og upplýsingar úr klínískum textum. Niðurstaðan var að það væri að minnsta kosti raunhæfur möguleiki aðtengsl væru á milli bólusetninga með þessum bóluefnum og miklum tíðablæðingum. Aukaverkanirnar voru í flestum tilfellum tímabundnar og ekki alvarlegar. Mælt var með að uppfæra lyfjatexta bóluefnanna með tilliti til þessa,“ segir Lyfjastofnun.
Í tilkynningu stofnunarinnar segir að röskun tíðahringsins sé almennt fremur algeng og geti orðið af ýmsum ástæðum. Allir sem fá blæðingar eftir breytingaskeið eða hafi áhyggjur af tíðahring sínum ættu hins vegar að hafa samband við lækni.
Ekkert bendi til þess að aukaverkanir sem tilkynntar hefðu verið hefðu áhrif á frjósemi. Einnig sýndu gögn að svokölluð mRNA bóluefni að þau væru örugg á og eftir meðgöngu.
„Nefndin tekur fram að öll gögn bendi til þess að ávinningurinn sé töluvert meiri en áhættan af notkun bóluefnanna. Heilbrigðisstarfsfólk og almenningur eru þó beðin um að halda áfram að tilkynna grun um aukaverkun ef miklar tíðablæðingar verða eftir bólusetningu. PRAC mun halda áfram að fylgjast með tilfellunum og uppfæra tilmæli sín ef þörf þykir.“