Skoðun

Þrjátíu og tvær stundir eða fjögurra daga vinnuvika

Ragnar Þór Ingólfsson skrifar

Í þeim kjarasamningaviðræðum sem nú standa yfir fer VR fram með kröfu um 4-daga vinnuviku. Það þýðir einfaldlega að við viljum stytta vinnuvikuna í 32 stundir, án skerðingar á launum.

Þessi krafa er orðin æ háværari, ekki bara hér á landi heldur víða erlendis. Hugmyndin um 32 stunda vinnuviku felur að okkar mati í sér sveigjanleika og mismunandi útfærslur. Hún felur í sér loforð um breytt viðhorf og breytingar á vinnufyrirkomulagi. Styttri vinnuvika getur til dæmis verið fimm styttri vinnudagar, nú eða fjórir venjulegir vinnudagar í fjögurra daga vinnuviku, svo fremi að heildarvinnutíminn sé 32 stundir á viku.

Árið 1955, árið sem VR varð félag launafólks eingöngu, var samið um 48 klst. vinnuviku í verslun og 39 til 41 klst. á skrifstofu - vinnuvikan á skrifstofum var styttri að sumarlagi og laugardagar töldust með dagvinnutíma. Vinnuvikan styttist smám saman á næstu árum og árið 1971 voru samþykkt lög um 40 stunda vinnuviku. Vinnuvika skrifstofufólks innan VR var þá orðin styttri en þessu nemur, og hélst áfram styttri.

Frá aldamótum hefur VR tvívegis samið um styttingu vinnuvikunnar í kjarasamningum, um hálftíma árið 2000 og um þrjú korter í Lífskjarasamningnum árið 2019. Krafa VR um að stytta vinnuvikuna í 32 vinnustundir er ekki svo stórt stökk frá því sem félagsfólk býr við í dag. Virkur vinnutími afgreiðslufólks innan VR er 35 klst. og 50 mínútur á viku og 35 og hálf stund hjá skrifstofufólki. Stytting vinnuvikunnar sem samið var um í síðustu kjarasamningum hefur tekist vel til hjá VR og er mikil ánægja með hana. Frekari stytting fékk mikinn stuðning í aðdraganda þeirra viðræðna sem nú eru hafnar.

Stytting vinnuvikunnar er eðlileg krafa í framsæknu samfélagi og að starfsfólk eigi raunverulegt val um það hvernig það hagar vinnutíma sínum. Kannanir hafa sýnt að launafólk vill meiri sveigjanleika og starf sem kemur til móts við óskir þess um meira jafnvægi milli vinnu og einkalífs, um meiri frítíma. Covid kenndi okkur líka að við getum unnið öðruvísi.

Það er alveg ljóst að það þarf að breyta vinnufyrirkomulagi til að stytta vinnuvikuna. Það þarf að breyta skipulagningunni, mætingum og viðveru, jafnvel opnunartíma. Það þarf að breyta vaktafyrirkomulagi hjá þeim sem vinna vaktavinnu. Átta tíma vakt er ekki meitluð í stein, ekki frekar en 40 stunda vinnuvika. Þessu er öllu hægt að breyta.

VR stendur fyrir fundi um styttingu vinnuvikunnar þann 15. nóvember. Við stefnum á 32 stundir.

Höfundur er formaður VR.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×