Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - Stjarnan 22-35 | Stjarnan skellti Selfossi í uppgjöri liðanna um miðja deild Hjörvar Ólafsson skrifar 13. nóvember 2022 21:03 VÍSIR/HULDA MARGRÉT Stjarnan vann sannfærandi 22-35 sigur þegar liðið atti kappi við Selfoss í níundu umferð Olísdeildar karla í handbolta í Set-höllinni á Selfossi í kvöld. Jafnt var á öllum tölum framan af fyrri hálfleik en þá náðu gestirnir úr Garðabænum undirtökunum í leiknum. Leikmenn Stjörnunnar hertu tökin í varnarleiknum og fengu í kjölfarið auðveld mörk úr hraðaupphlaupum. Þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik var Stjarnan með fimm marka forskot, 15-10, en minnugur frammistöðu liðsins í seinni hálfleik í síðustu leikjum liðsins hefur Patrekur Jóhannesson líklega brýnt hressilega fyrir lærisveinum sínum að halda uppteknum hætti í seinni hálfleik í hálfleiksræðu sinni. Stjörnumenn voru greinilega staðráðnir í að hamra járnið á meðan það var heitt og þeir komu öflugir inn í seinni háfleikinn. Stjarnan náði tíu marka forskoti um miðbik seinni hálfleiks. Gestirnir slökuðu ekkert á og fóru að lokum með 13 marka sigur af hólmi. Stjarnan komst upp að hlið Aftureldingu með 11 stig með þessum sigri en liðin sitja í fjórða til fimmta sæti deildarinnar. Selfoss er aftur á móti í sjöunda sæti með níu stig. Þessi sigur var afar mikilvægur upp á framhaldið fyrir Stjörnuna sem er nú komið í pakkann í toppbaráttunni. Garðbæingar eru þremur stigum á eftir Val sem á leik til góða og mætir Haukum annað kvöld. Stjarnan er svo tveimur stigum á eftir FH sem er í öðru sæti og einu stigi á eftir Fram sem er sæti ofar en Garðabæjarliðið. Adam Thorstensen var í stuði í marki Stjörnunnar í þessari rimmu en hann var með tæplega 50 % hlutfallsmarkvörslu en hann varði 17 skot í leiknum bakvið þétta vörn liðsins. Patrekur Jóhannesson var sáttur með lærisveina sína. Vísir/Hulda Margrét Patrekur: Gott fyrir mig sem þjálfara að sjá hvað við getum gert „Það var gott að sjá leikmenn mína sýna þá líkamstjáningu að þeir séu hungraðir í að spila vel og vinna. Við vildum ná heilsteyptri frammistöðu allan leikinn sem við höfum ekki náð að gera í undanförnum leikjum. Spilamennskan var stöðug út allan leikinn sem er afar jákvætt," sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, að leik loknum. „Við sýndum svo drápseðli og slökuðum ekkert á klónni þrátt fyrri að vera komnir með öruggt forskot og það hefur einnig skort á það sem af er þessari leiktíð. Næsta skref er svo að byggja á þessu og sýna stöðugleika í nokkrum leikjum í röð," sagði þjálfari enn fremur. „Aginn í sóknarleiknum og sterkur varnarleikur var það sem gladdi mig mest fyrir utan hugarfarið. Það er ekkert kæruleysi þrátt fyrir góða stöðu og við sýndum skynsemi í öllum okkar aðgerðum. Nú er bara að halda áfram á þessari braut," sagði hann. Þórir Ólafsson var svekktur með leikmenn sína. „Við byrjuðum þennan leik vel en svo undir lok fyrri hálfleiksins þá urðum við ragir í því sem við vorum að gera í sóknarleiknum. Það voru ekki endilega tapaðir boltar sem urðu okkur að falli heldur frekar að við þorðum ekki að framkvæma það sem við ætluðum að gera," sagði Þórir Ólafsson, þjálfari Selfoss. „Það hjálpaði ekki heldur til að við vorum mikið einum færri og svo tveimur og jafnvel þremur á smá kafla. Við fórum yfir hlutina í hálfleik og það var svekkjandi að fá ekki viðbragð í seinni hálfleik. Við náðum ekki að laga það sem var að og því fór sem fór," sagði Selfyssingurinn. „Þessi leikur er bara búinn og eina sem við getum gert er að læra af honum. Það þarf meira þor í sóknarleiknum og aðgerðum okkar á þeim helmingi vallarins í næstu leikjum ef vel á að fara," sagði hann um framhaldið. Af hverju vann Stjarnan? Stjarnan óx ásmegin eftir því sem leið á leikinn, þá sérstaklega í varnarleiknum. Sóknarleikurinn var vel útfærður allan leikinn og margir leikmenn sem lögðu í púkkinn þar. Þórður Tandri Ágústsson var góður inni á línunni og skyttur liðsins lögðu lóð sín á vogarskálina. Þá komu líka mörk úr hornunum. Hverjir sköruðu fram úr? Hergeir Grímsson leið greinilega vel á gamla heimavellinum en hann skoraði sex mörk líkt og Þórður Tandri. Þá var Tandri Már Konráðsson öflugur á báðum endum vallarins. Vilius Rasimas verður ekki sakaður um tap Selfoss en hann varði 13 skot í þessum leik. Hvað gekk illa? Sóknarleikur Selfoss var illa skipulagður og leikmenn tóku oft og tíðum ótímabær og illa ígrunduð skot. Leikmenn og stuðningsmenn beindu sjónum sínum að dómaraparinu þegar illa gekk og það kann aldrei góðri lukku að stýra. Selfoss fékk níu brottvísanir og eitt rautt spjald gegn sex tveimur mínútum hjá Stjörnunni. Hvað gerist næst? Stjarnan sækir topplið deildarinnar, Val, heim á föstudaginn kemur en Selfoss leiðir hins vegar hesta sína saman við Aftureldingu á mánudaginn 21. nóvember. Olís-deild karla UMF Selfoss Stjarnan Handbolti
Stjarnan vann sannfærandi 22-35 sigur þegar liðið atti kappi við Selfoss í níundu umferð Olísdeildar karla í handbolta í Set-höllinni á Selfossi í kvöld. Jafnt var á öllum tölum framan af fyrri hálfleik en þá náðu gestirnir úr Garðabænum undirtökunum í leiknum. Leikmenn Stjörnunnar hertu tökin í varnarleiknum og fengu í kjölfarið auðveld mörk úr hraðaupphlaupum. Þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik var Stjarnan með fimm marka forskot, 15-10, en minnugur frammistöðu liðsins í seinni hálfleik í síðustu leikjum liðsins hefur Patrekur Jóhannesson líklega brýnt hressilega fyrir lærisveinum sínum að halda uppteknum hætti í seinni hálfleik í hálfleiksræðu sinni. Stjörnumenn voru greinilega staðráðnir í að hamra járnið á meðan það var heitt og þeir komu öflugir inn í seinni háfleikinn. Stjarnan náði tíu marka forskoti um miðbik seinni hálfleiks. Gestirnir slökuðu ekkert á og fóru að lokum með 13 marka sigur af hólmi. Stjarnan komst upp að hlið Aftureldingu með 11 stig með þessum sigri en liðin sitja í fjórða til fimmta sæti deildarinnar. Selfoss er aftur á móti í sjöunda sæti með níu stig. Þessi sigur var afar mikilvægur upp á framhaldið fyrir Stjörnuna sem er nú komið í pakkann í toppbaráttunni. Garðbæingar eru þremur stigum á eftir Val sem á leik til góða og mætir Haukum annað kvöld. Stjarnan er svo tveimur stigum á eftir FH sem er í öðru sæti og einu stigi á eftir Fram sem er sæti ofar en Garðabæjarliðið. Adam Thorstensen var í stuði í marki Stjörnunnar í þessari rimmu en hann var með tæplega 50 % hlutfallsmarkvörslu en hann varði 17 skot í leiknum bakvið þétta vörn liðsins. Patrekur Jóhannesson var sáttur með lærisveina sína. Vísir/Hulda Margrét Patrekur: Gott fyrir mig sem þjálfara að sjá hvað við getum gert „Það var gott að sjá leikmenn mína sýna þá líkamstjáningu að þeir séu hungraðir í að spila vel og vinna. Við vildum ná heilsteyptri frammistöðu allan leikinn sem við höfum ekki náð að gera í undanförnum leikjum. Spilamennskan var stöðug út allan leikinn sem er afar jákvætt," sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, að leik loknum. „Við sýndum svo drápseðli og slökuðum ekkert á klónni þrátt fyrri að vera komnir með öruggt forskot og það hefur einnig skort á það sem af er þessari leiktíð. Næsta skref er svo að byggja á þessu og sýna stöðugleika í nokkrum leikjum í röð," sagði þjálfari enn fremur. „Aginn í sóknarleiknum og sterkur varnarleikur var það sem gladdi mig mest fyrir utan hugarfarið. Það er ekkert kæruleysi þrátt fyrir góða stöðu og við sýndum skynsemi í öllum okkar aðgerðum. Nú er bara að halda áfram á þessari braut," sagði hann. Þórir Ólafsson var svekktur með leikmenn sína. „Við byrjuðum þennan leik vel en svo undir lok fyrri hálfleiksins þá urðum við ragir í því sem við vorum að gera í sóknarleiknum. Það voru ekki endilega tapaðir boltar sem urðu okkur að falli heldur frekar að við þorðum ekki að framkvæma það sem við ætluðum að gera," sagði Þórir Ólafsson, þjálfari Selfoss. „Það hjálpaði ekki heldur til að við vorum mikið einum færri og svo tveimur og jafnvel þremur á smá kafla. Við fórum yfir hlutina í hálfleik og það var svekkjandi að fá ekki viðbragð í seinni hálfleik. Við náðum ekki að laga það sem var að og því fór sem fór," sagði Selfyssingurinn. „Þessi leikur er bara búinn og eina sem við getum gert er að læra af honum. Það þarf meira þor í sóknarleiknum og aðgerðum okkar á þeim helmingi vallarins í næstu leikjum ef vel á að fara," sagði hann um framhaldið. Af hverju vann Stjarnan? Stjarnan óx ásmegin eftir því sem leið á leikinn, þá sérstaklega í varnarleiknum. Sóknarleikurinn var vel útfærður allan leikinn og margir leikmenn sem lögðu í púkkinn þar. Þórður Tandri Ágústsson var góður inni á línunni og skyttur liðsins lögðu lóð sín á vogarskálina. Þá komu líka mörk úr hornunum. Hverjir sköruðu fram úr? Hergeir Grímsson leið greinilega vel á gamla heimavellinum en hann skoraði sex mörk líkt og Þórður Tandri. Þá var Tandri Már Konráðsson öflugur á báðum endum vallarins. Vilius Rasimas verður ekki sakaður um tap Selfoss en hann varði 13 skot í þessum leik. Hvað gekk illa? Sóknarleikur Selfoss var illa skipulagður og leikmenn tóku oft og tíðum ótímabær og illa ígrunduð skot. Leikmenn og stuðningsmenn beindu sjónum sínum að dómaraparinu þegar illa gekk og það kann aldrei góðri lukku að stýra. Selfoss fékk níu brottvísanir og eitt rautt spjald gegn sex tveimur mínútum hjá Stjörnunni. Hvað gerist næst? Stjarnan sækir topplið deildarinnar, Val, heim á föstudaginn kemur en Selfoss leiðir hins vegar hesta sína saman við Aftureldingu á mánudaginn 21. nóvember.
Uppgjörið: Ísland - Úkraína 27-24 | Sögulegur sigur og stelpurnar okkar á leið í hreinan úrslitaleik