Snorri Másson fréttamaður Stöðvar 2 var staddur í Laugardalshöll í gærkvöldi þar sem undirbúningur fyrir tónleikana er á lokametrunum. 5500 manns komast fyrir í Laugardalshöll en uppselt er í stúku í kvöld og örfáir miðar eftir annarsstaðar.
Að sögn Georgs verður „alvöru sjóv“ í kvöld. Undanfarin ár hafa meðlimir Sigur Rósar ratað í fréttirnar vegna leiðinlegra mála á borð við skattamál en aðspurður segir Georg að Sigur Rós sé mætt aftur af fullum krafti. Von er á nýrri plötu frá sveitinni á næsta ári.
„Þetta voru kannski erfiðir tímar hjá okkur, jújú. En við höldum alltaf áfram. Á meðan það er gaman, þá er gaman.“
Georg á von á einstökum tónleikum í kvöld.
„Það verður mjög sérstakt að vera hérna með Amiina strengjasveit og brass og fleira. Ég held að það séu komin 14 ár síðan við spiluðum með strengjasveitinni. Þannig að við ákváðum að gera þetta svolítið sérstakt og gera þetta aðeins öðruvísi. Þannig að það er bara gaman.“