Uppsöfnun prótínsins í heilanum veldur dauða heilafruma og hefur í langan tíma verið talin ein af megin orsökum alzheimers-sjúkdómsins.
Vísindamenn segja lyfið marka tímamót í baráttunni gegn alzheimers en samkvæmt rannsóknum hægði það á framþróun sjúkdómsins hjá sjúklingum á byrjunarstigum. Þrátt fyrir að ávinningurinn af lyfinu virðist takmarkaður muni hann líklega aukast með tímanum.
Enn er ekki vitað hversu stórt hlutverk uppsöfnun APP í heilanum spilar í framþróun alzheimers-sjúkdómsins en hún virðist hafa alvarleg áhrif hjá þeim sem hafa erft stökkbreytingar sem hafa áhrif á niðurbrot APP prótínsins og viðbrögð líkamans við því.
Þess má geta að Íslensk erfðagreining hefur rannsakað umræddar stökkbreytingar og fundið aðra stökkbreytingu sem verndar gegn sjúkdómnum.
Fyrirtækin sem standa að lyfinu, Biogen í Bandaríkjunum og Eisai í Japan, greindu frá frumniðurstöðum rannsókna sinna í september en þær voru ekki birtar fyrr en í gær, í New England Journal of Medicine.
Rannsóknirnar leiddu í ljós að lyfið dró úr heilahrörnun sem nemur 27 prósentum á 18 mánuðum.
Talið er að um 55 milljónir manna um allan heim þjáist af heilabilun og að um tveir þriðjuhlutar þessa hóps þjáist af alzheimera-sjúkdómnum.
Sjúkdómurinn er helsta dánarorsökin á Bretlandseyjum, þar sem flestir látast innan sjö ára frá greiningu. Hann er sagður kosta breska heilbrigðiskerfið 25 milljarða punda á ári.
Hér má finna umfjöllun Guardian.