Sýnt verður beint frá verðlaununum í streymi.
Hannes Þór Halldórsson leikstjóri myndarinnar var á fullu í verkefnum með íslenska landsliðinu í knattspyrnu á sama tíma og hann vann að myndinni. Það kom því fyrir að hann stökk á milli starfa sinna sem leikstjóri og markmaður.
Einn daginn hófu þau tökur á Leynilöggu klukkan sjö og þurftu að klára að taka upp bílaeltingarleik fyrir 11 þegar Hannes þurfti að vera mættur á landsliðsæfingu. Hér fyrir neðan má sjá myndband um gerð myndarinnar Leynilögga þar sem hægt er að sjá Hannes á hlaupum á milli verkefna.
Evrópski Óskarinn
Hannes Þór sagði í samtali við Lífið í vikunni að myndin Leynilögga væri sífellt að koma þeim á óvart.
„Við vorum að gera grínmynd fyrir íslenskan markað, við ætluðum bara að gera skemmtilega mynd fyrir íslenska kvikmyndahúsagesti.“
Einhverjir hafa líkt tilnefningu Leynilöggu til verðlaunanna um helgina við það að íslenska landsliðið ætti séns á að vinna Evrópumót í knattspyrnu. Hannes Þór var spurður hvort að sú samlíking væri rétt.
„Þetta er mjög stór hátíð og sú stærsta í Evrópu, stærstu verðlaunin. Það hefur verið talað um þetta sem Evrópska Óskarinn. Fyrir okkur held ég að þetta sé ekkert ósvipað og íslenska landsliðið að komast á stórmót og það sem gerist þar er bara bónus. Sigurinn fyrir okkur er bara þessi tilnefning.“
Hann gat þó ekki valið á milli hvort tilnefningin eða spyrnan sem hann varði frá Messi á HM árið 2018 væri meiri hápunktur.
„Þú getur ekki stillt mér upp við þennan vegg.“
Viðtalið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.