Þetta kemur fram í erindi Haraldar Pálssonar, framkvæmdastjóra ÍBV, til fjárlaganefndar. Þar kemur jafnframt að aðstoðarmaður Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra hafi „staðfest að félagið fengi 100 milljónir króna úr sjóðnum bæði í samtölum og í smáskilaboðum“.
Kjarninn fjallaði um málið í gær. Haraldur segir í bréfinu að í tengslum við fjáraukalög fyrir síðasta ár hafi forsvarsmenn ÍBV fengið skilaboð um að félagið fengi hundrað milljónir króna til að bæta fyrir tekjutap þar sem aflýsa hafi þurft Þjóðhátíð í Eyjum vegna heimsfaraldursins. Félagið metur sem svo að heildartjón félagsins vegna faraldursins og samkomutakmarkananna sé vel yfir þrjú hundruð milljónir króna.
Þeim hafi hins vegar brugðið þegar í ljós kom að einungis fjörutíu milljónir króna hafi borist félaginu í apríl síðastliðinn frá mennta- og barnamálaráðuneytinu. Það hafi gerst eftir „ótöl símtöl og vandræðalega mikla eftirgrennslan“, segir í bréfi Haraldar.

Fjárhagsstaðan erfið
Í erindinu segir að ÍBV reiði sig á tekjur frá Þjóðhátíð til móts við æfingagjöld og styrki fyrirtækja. „Af þessum sökum er félagið í erfiðri fjárhagsstöðu um þessar mundir og á erfitt með að standa í skilum í sínum rekstri.“
Félagið óskar í erindinu því eftir að fjárlaganefnd taki málið sérstaklega fyrir og veiti félaginu viðbótarstyrk svo það „geti haldið áfram að halda við innviðum Þjóðhátíðarinnar og náð endum saman“. Vilja forsvarsmenn að „staðið verði við fyrri loforð gagnvart þeim styrk sem ákveðinn var við úrvinnslu fjáraukalaga fyrir árið 2021, en þar hafa einungis fengist greiddar 40 milljónir króna af þeim 100 milljónum króna sem félaginu hafði áður verið tilkynnt“.

Tveir þriðju rynnu óskipt til ÍBV
Haraldur ræðir ennfremur í erindinu að við vinnslu fjáraukalaga fyrir síðasta ár hafi fjárlaganefnd borist tillaga að styrk til íþrótta- og æskulýðsfélögum vegna tekjumissis ýmissa viðburða árið 2021 sem fella þurfti niður með skömmum fyrirvara þegar samkomutakmarkanir tóku aftur gildi.
Þar hafi verið vilji ríkisstjórnarinnar að veita sextíu milljónum króna í málefnið þar sem skilyrt væri að fjörutíu milljónir hið minnsta færu óskiptar til ÍBV.
„Fjárlaganefnd tók málið fyrir og mat stöðuna þannig, byggt á fyrirliggjandi gögnum, að hækka ætti framlagið í 100 milljónir króna og halda hlutföllunum um lágmarkshlut ÍBV óbreyttu eða 2/3. Ekkert var því til fyrirstöðu að ef ekkert annað félag myndi sækja í þennan sjóð á sömu forsendum og að ÍBV fengi þannig allan sjóðinn, enda höfðu aðgerðir stjórnvalda orðið til þess að félagið hafi orðið af 230 milljónum króna hið minnsta undanfarin tvö árin,“ segir í erindi Haraldar.