Það bjuggust eflaust flestir við því að Ísmaðurinn Gerwyn Price kæmist áfram á móti honum þýska Clemens sem var raðað í 25. sæti inn í mótið. Price er efstur á heimslistanum og varð heimsmeistari árið 2021.
Clemens vann hins vegar nokkuð öruggan 5-1 sigur og mætir Englendingnum Michael Smith í undanúrslitum í dag. Þetta er í fyrsta sinn sem Clemens kemst svo langt. Price vann reyndar fyrsta settið en Clemens svaraði með því að vinna fimm í röð og tryggja sér sigur.
Price var ekki vinsæll meðal áhorfanda í Alexandra Palace en fjölmargir þýskir áhorfendur voru mættir til London til að styðja sinn mann.
Svo mikið var púað á Price að hann reyndi að búa sér til vinnufrið með því að setja á sig hljóðeinangri heyrnartöl. Það dugði þó ekki til.
Smith sló út landa sinn Stephen Bunting en hann hefur komist tvisvar í úrslitaleikinn á síðustu þremur árum en tapaði í bæði skiptin.
Í hinum undanúrslitaleiknum mætast Belginn Dimitri Van den Bergh og Hollendingurinn Michael van Gerwen. Van den Bergh er í fyrsta sinn í undanúrslitum en Van Gerwen hefur fimm sinnum komist í úrslitaleikinn og þrisvar orðið heimsmeistari.
Undanúrslitin fara fram í kvöld og úrslitaleikurinn er síðan á morgun.