Frá þessu segir í tilkynningu frá atNorth. Þar kemur fram að lykilstarfsfólk muni áfram starfa í gagnaverunum og tryggja með sérfræðiteymi atNorth hnökralaus umskipti og samfellda þjónustu við viðskiptavini. Advania muni nýta þjónustu gagnaveranna eftir sem áður, en félagið veitir alhliða upplýsingatækniþjónustu á Norðurlöndum sem reiðir sig á gagnaversþjónustu.
AtNorth rekur fyrir gagnaver og ofurtölvuþjónustu í Hafnarfirði og Reykjanesbæ og reisir um þessar mundir nýtt gagnaver á Akureyri. Félagið hyggst reisa þriðja gagnaverið í Finnlandi, en fyrirtækið starfrækir einnig gagnaver í Svíþjóð.

Haft er eftir Eyjólfi Magnúsi Kristinssyni, forstjóra atNorth, að fjárfestingin í Finnlandi sé mikilvæg og í samræmi við yfirlýsta stefnu atNorth um að verða leiðandi á sínu sviði á Norðurlöndunum.
„Fyrir okkur er þetta mjög spennandi verkefni sem fellur vel að okkar áformum um að reka gagnaver á öllum Norðurlöndunum. Finnland hefur lengi verið leiðandi í tæknilausnum og vinnur skipulega að því að laða til sín erlendar fjárfestingar á þessu sviði. Rík hefð er fyrir fjárfestingum finnskra fyrirtækja í rannsóknum og þróun stafrænna lausna og hafa stjórnvöld sett stafræna þróun í forgang og þar með gagnaversiðnað sem er grunnstoð stafrænnar vegferðar samfélagsins. ” segir Eyjólfur Magnús.