Sonur Bjarna sagði frá ævintýrum kindanna í Facebook-hópnum Sauðfjárbændur fyrr í vikunni. Kindurnar höfðu þá fundist í hlíðum Ljárskógafjalls, við ána Fáskrúð, í aðdraganda jóla.

„Ég vissi um þær og fór að gá að þeim. Bróðir minn sá kindurnar áður en hríðin skall á svo ég fór að leita að þeim og fann þær,“ segir Bjarni.
Bjarni segir að hann hafi komið að þeim þar sem þær væru tvær að hluta upp úr snjónum. „Þær voru tvær sem voru að hluta upp úr snjónum, aðeins fenntar í snjó. En svo var eitt lamb sem var alveg á kafi sem ég þurfti að moka upp. Ég held að hann hafi verið á tveggja metra dýpi; lambhrútur.“
Bjarni segir að þær hafi orðið eftir á fjallinu í haust. „Ég hugsa að þær hafi verið fastar í snjónum í svona tvo sólarhringa. En það er í góðu lagi með þær.“
Aðspurður um hvort hann hafi tekið eftir einhverri tófu í nágrenni kindanna segir hann að svo hafi ekki verið. „Hrafninn var hins vegar byrjaður að sveima yfir þeim,“ segir Bjarni.
