Það brast skyndilega á með miklu hvassviðri í Hlíðarfjalli um dag sem hafði þær afleiðingar að Fjarkinn, önnur stólalyfta svæðisins, réði ekki við vindinn.
„Við bara köllum út viðbragðsaðila og förum að vinna í það að fara í neyðarkeyrslu með lyftuna og sjá hvernig það gengur. Vírinn fer út af lyftunni og þá er ákveðið að tæma lyftu,“ segir Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður skíðasvæðisins í samtali við Vísi.

Þá voru björgunarsveitir kallaðar út samkvæmt viðbragsáætlun. 21 skíðakappi sat fastur í stólunum. Þar á meðal var ástralski ferðamaðurinn Andrew Davies, sem er á ferð um Ísland með syni sínum. Þeim varð ekki meint af því að sitja fastir.
„Allan tímann sem við erum þarna erum við þétt við hvort annað, reyna að halda hita á okkur. Við erum heppin í dag því að hitastigið var ekki svo lítið, jafn vel þótt vindurinn hafi verið mikill. Það var vindkæling en það var ekki svo slæmt, þannig að okkur leið ekkert svo illa,“ segir Andrew í samtali við fréttastofu.

Hann reiknar með að hafa verið fastur í á þriðja tíma, en hafði þó ekki miklar áhyggjur.
„Við sáum að það var nóg af fólki á leið upp og niður á snjósleðum svo að við sáum að það var eitthvað að gerast, þannig að okkur leið ekki eins og við værum ein. Ég ætla ekki að segja að við höfum ekki litið niður og hugsað hvort ég gæti dottið niður, myndi ég lifa það af? Ég hugsaði í versta falli myndi ég fótbrotna en verri hlutir en það geta gerst,“ sagði hann.

Björgunaraðgerðir gengu vel en strandaglóparnir voru látnir síga niður. Engum varð meint af.
„Það var enginn sem hlaut skaða af, enginn sem þurfti áfallahjálp. Það var einn sem að var orðinn kaldur en ég held að allir hafi braggast vel,“ segir Brynjar Helgi.
Sjálfur segist Andrew vera kominn með góða sögu til að segja þegar hann kemur heim
„Ég er með ævintýri til að segja frá. Ég er með nokkrar myndir til að sýna fjölskyldunni minni þegar ég kem heim.“