„Til allra aðdáenda hans, um allan heim: Ég sé ykkur fljótlega,“ skrifar Jaafar í tilkynningu á Instagram.
Kvikmyndin mun bera titilinn Michael og verður leikstýrt af Antoine Fuqua. Fuqua hefur leikstýrt myndunum Training Day og Emancipation. Þá mun Graham King, sem hefur meðal annars komið að framleiðslu myndarinnar Bohemian Rhapsody, framleiða myndina.
Michael Jackson skaust upp á stjörnuhimininn sem barn þegar hann var í fjölskylduhljómsveitinni Jackson 5. Á fullorðinsárum reis hann enn hærra og varð einn stærsti tónlistarmaður síns tíma.
Stúdíóið sem framleiðir myndina hefur ekki tilkynnt hvort snert verði á fjölmörgum skandölum Jacksons í myndinni. Meðal þeirra eru ásakanir um að hann hafi misnotað börn kynferðislega. Jackson var dreginn fyrir dóm árið 2003 en sýknaður af barnaníði. Jackson lést árið 2009, þá fimmtugur, eftir að hafa fengið of stóran skammt af própófóli.
Stúdíóið hefur hins vegar sagt að allar hliðar lífshlaups Jacksons verði til umfjöllunar í myndinni, þar á meðal verði sýnt frá frægustu tónleikum hans.
Prince, sonur Jacksons, skrifaði á Instagram eftir að tilkynnt var um leikaravalið að hann gæti ekki verið hamingjusamari með Jaafar.