„Síðustu tvö ár hafa verið lærdómsrík og héldu margir að ég hafi einfaldlega hætt í tónlist og sett gítarinn upp í hillu. Ég hef haft tíma til að spá í tónlist og mig langaði að gefa frá mér lag sem ég er ákaflega stoltur af. Ég hef alltaf komið til dyranna eins og ég er klæddur hvað varðar texta í lögunum mínum og í þessu er engin breyting,“ segir Ingó um nýja lagið sem nefnist Gítarinn.
Einn í dimmu húsi
„Þetta lag var samið áður en ég fékk bestu fréttir lífs míns að ég væri að verða faðir sem hefur einnig hvatt mann til að einblína á allt sem er jákvætt,“ segir Ingó sem eignaðist sitt fyrsta barn í fyrra.
Lagið er komið út á Spotify en í textanum syngur Ingó meðal annars:
„Hann á endalaust af minningum en eru þær þess virði ef þú endar undir áhrifum á bar í Hafnarfirði?“
Ingó syngur um að gera allt fyrir frægð og frama en einnig nauðsyn þess að þurfa að deyfa sig til að þykjast hafa gaman.
„Hann þoldi illa umtal enda viðkvæm litla sálin. Ný kærasta á hverjum stað, sem flækti bara málin. Hann kynntist fólki úti um allt sem sagðist hafa trúna. Nú er frægðarsólin sest, svo hvar eru þau núna? Hann situr einn í dimmu húsi, enginn honum hjá. Gítarinn er það eina sem hann á.“
Gítarleikarinn í lagi Ingó hugsar til baka, til kærustunnar sem hann hrakti frá sér með drykkju og lélegri forgangsröðun.
„Hann ætti kannski að biðja einhverja afsökunar á öllu, eða þá sem ekki skilja að þetta var hans köllun.“
Hann þorir ekki að hringja og semur því bara lag.
Afbókanir og tekjutap
Lagið markar endurkomu Ingó Veðurguðs aftur í tónlistarbransann. Eins og kom fram á Vísi í lok síðasta árs stefnir Ingó á að halda stórtónleika í Háskólabíói í mars á þessu ári. Nú er hann einnig byrjaður að gefa út tónlist eftir nokkurra mánaða hlé.
Í júlí árið 2021 urðu kaflaskil í lífi tónlistarmannsins þegar reynslusögur yfir tuttugu kvenna sem greindu frá meintu kynferðisofbeldi og áreitni af hans hálfu á samfélagsmiðlinum Tik Tok. Sögurnar birtust nafnlausar á Tik Tok reikningi hópsins Öfga.
Pistill Andreu Aldan Hauksdóttur birtist svo undir nafni og fór í dreifingu en í honum opinberaði hún samskipti sín Ingó á skemmtistaðnum Oliver árið 2009 þegar hún var nítján ára gömul.
Í kjölfarið af ásökununum var Ingó afbókaður á brekkusönginn á Þjóðhátíð og sömuleiðis á menntaskólaböllum. Þriðju þáttaröð af Í kvöld er gigg var aflýst og fundinn var nýr tónlistarmaður til þess að leika Danny í uppsetningunni á Grease.
Ingó fór í kjölfarið í hart og krafði nokkra einstaklinga um bætur vegna ummæla á samfélagsmiðlum. Fór hann með eitt málið alla leið í Landsrétt þar sem það bíður úrlausnar.