Megan Fox og Machine Gun Kelly trúlofuðust í janúar árið 2022 en samband þeirra hófst snemma á árinu 2020. Þau kynntust við tökur á bíómyndinni Midnight in the Switchgrass og hafa þau síðan þá virst ástfangin upp fyrir haus, að minnsta kosti á samfélagsmiðlum: „Eftir að hafa gengið í gegnum súrt og sætt og eftir að hafa hlegið meira en ég hefði getað ímyndað mér, bað hann mig um að giftast sér,“ skrifaði Megan til að mynda þegar hún tilkynnti um trúlofunina á Instagram. „Og líkt og í öllum öðrum líftímum á undan þessum, og í öllum þeim sem fylgja, sagði ég já.“
Í dag eyddi hún hins vegar öllum myndum af þeim tveimur á Instagram síðu sinni og tók upp á því að fylgja aðeins þremur þekktum einstaklingum, söngvaranum Harry Styles, rapparanum Eminem og leikaranum Timothée Chalamet. Nú virðist Megan hins vegar búin að eyða Instagram-aðgangi sínum.
Megan hefur ekki svarað fyrirspurn slúðurmiðilsins E! News en miðillin greinir frá því að hún og rapparinn Drake hafi sést mæta saman í teiti fyrir Ofurskál ameríska fótbóltans sem haldin verður í kvöld.