Verkfallið hefst á hádegi á morgun og munu þá allir bílstjórar Olíudreifingar á Stór-Reykjarvíkursvæðinu leggja niður störf. Það gerir það meðal annars að verkum að ekki verður unnt að fylla á bensínstöðvar. Starfsmenn bensínstöðvanna hafa nýtt síðustu daga til að undirbúa verkfallið.
Gengur hratt á tanka stöðvanna
„Það eru allir að leggjast á eitt, sama hvort það sé starfsfólk N1 eða starfsfólk Olíudreifingar að sjá til þess að allir tankar á okkar stöðvum sé fullir. Það gengur hratt á þá jafnóðum. Það er nú líklegt að einstaklingar fari að finna fyrir þessu verkfalli annað kvöld eða á fimmtudaginn,“ segir Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1 í samtali við Vísi.

Neytendur sem óttast áhrif verkfallsins hafa enda verið duglegir við að fylla á tanka bílanna, og gott betur. Sumir eru nefnilega stórtækari en aðrir, eins og myndin efst í fréttinni ber með sér merki.
„Ég er búinn að vera duglegur að keyra á milli stöðvana okkar í gær og í dag. Ég sá í gærkvöldi fólk vera að fylla á gamlar smurolíutunnur. Það er alls konar. Búið að vera mikil sala á alls konar brúsum og ílátum,“ segir Hinrik Örn.
Þetta skilar sér í margfaldri sölu í dag og í gær, sem er þó skammgóður vermir.
„Við erum að horfa á margföld dagsviðskipti en þetta er hlýtt og gott í skamman tíma. Við seljum mikið í gær og í dag en svo bara slökknar á þessu,“ segir Hinrik Örn.

Varað hefur við því að hamstra eldsneyti, sérstaklega með tilliti til þess að hætta getur skapast vegna eldsneytis sem geymt er á stöðum sem ekki eru endilega ætlaðir eldsneyti.
Ferðaþjónustan áhyggjufull
N1 heldur úti skjali á vefsíðu fyrirtækisins þar sem almenningur getur nálgast má upplýsingar um hvaða stöðvar eru opnar og hverjar eru lokaðar vegna verkfallsins.
„Þetta er ekki síður fyrir ferðaþjónustuna. Þeir aðilar hafa miklar áhyggjur af því að rúturnar þeirra fari að stranda á Gullfoss-Geysis rúntinum eða viðskiptavinir bílaleiga komist ekki aftur út á flugvöll. Þannig að þetta er upplýsingatæki, bæði fyrir Íslendinga og erlenda ferðamenn. Þetta mun örugglega verða mjög virkt skjal. Við erum búin að þurfa að hræra í því einu sinni í morgun þegar ein stöðin okkar í Hafnarfirði var tóm strax í morgun. Við erum búin að fylla á hana aftur.“
Efling hefur opnað fyrir umsóknir um undanþágubeiðnir frá verkfallinu. Undanþágunum er ætlað til að tryggja almannaöryggi og má ætla að slökkvilið, lögregla og fleiri stofnanir í þeim dúr fái slíka undanþágu. Ekki liggur þó endanlega fyrir hvernig slíkar undanþágur verða framkvæmdar.
N1 hefur þegar sótt um undanþágu til að geta sinnt þeim aðilum sem fá undanþágu.
„Við höfum túlkað þetta þannig og vilja hafa vaðið fyrir neðan okkur að við höfum sótt um undanþágu til að geta meðal annars sinnt lögreglu og slökkviliði og björgunarsveitum og mögulega Vegagerðinni eða þeim aðilum sem Efling gefur undanþágur,“ segir Hinrik Örn.