Eldur kom upp í smáhýsinu þann sjöunda febrúar síðastliðinn og var húsið fljótlega alelda. Hinn þrítugi Alexander Feykir Heiðarsson hafði fengið boð um að dvelja þar frá félaga sínum fyrir nokkru og þegið það á sínum tíma. Hann segist mjög heppinn að hafa ekki verið á staðnum þennan örlagaríka morgun.
„Ég fékk bara óþægilega tilfinningu og ákveð að verða eftir í Breiðholti hjá vini mínum. Ég sofna til hádegis og sé bara tuttugu og eitthvað símtöl og sms; hvort ég sé á lífi, hvort ég hafi séð fréttirnar,“ segir Alexander. „Ég var bara í losti, ég vissi ekki hvað ég átti að hugsa.“
Allt sem hann átti var inni í húsinu þegar það kviknaði í og nú á hann aðeins fötin sem hann var í og síma sinn.
Þremur vikum síðar veit hann enn ekki hvað varð til þess að það kviknaði í en að hans sögn hafði hann passað upp á að slökkva á öllum tækjum þegar hann var ekki heima. Hann grunar að einhver hafi kveikt í en veit ekki hver gæti hafa verið að baki ef svo er raunin. Enga hjálp sé að fá frá yfirvöldum.
„Ég fæ engin svör, það er bara spurt hvort ég vilji eiga eitthvað af dótinu sem brann og það er fáránlegt einu sinni að hugsa út í það,“ segir hann. Enn er hægt að komast inn í húsið en það er fullt af drasli og lítið verið gert til að tæma það eða laga.
Vill öruggt húsnæði til að geta lifað lífi sínu eðlilega
Eins og stendur fær hann að dvelja hjá vini sínum en veit ekkert hvað morgundagurinn ber í skauti sér. „Ég veit ekkert hvert ég á að fara, það getur enginn hjálpað hjá Félagsbústöðum og reddað húsnæði,“ segir hann.
Skilaboðin sem hann hafi fengið hafi verið þau að hann gæti annað hvort farið á geðdeild, sem hann telur ekki munu hjálpa þar sem vandi hans liggi ekki þar, eða í gistiskýlin, sem henti ekki heldur.
„Mig langar ekki að festast í vítahring í gistiskýlinu, þó svo að það sé aðstaða sem er góð fyrir fólk sem þarf á henni að halda. Ég bara kýs að fara ekki þangað vegna neyslunnar sem einfaldlega er á því svæði,“ segir Alexander en hann óttast að það muni aðeins skemma fyrir í hans batavegferð.

Þá sé mikið áreiti alls staðar í flestum úrræðum, einnig í smáhúsunum og það því ekki fýsilegur kostur til framtíðar. Hann vanti öruggt húsnæði, ekki síst til að geta fengið átta ára son sinn í heimsókn, unnið í eigin bata og farið í skóla, sem hann þráir helst.
„Mig langar ekki að vera fastur þar sem ég kemst ekkert áfram. Lífið er bara fast í einhverjum „Groundhog day“ dag eftir dag og það er lítið spennandi,“ segir Alexander en hann er þrátt fyrir ítrekuð áföll vongóður um að staðan verði betri, þó langt sé í land.
Ekki nóg að segjast ætla gera betur
Nauðsynlegt sé að yfirvöld geri betur og meira þurfi til en stanslausar yfirlýsingar um úrbætur.
„Það þýðir ekkert að segja bara að þeir séu að fara að hjálpa og svo skeður ekki neitt. Það er enginn sem hefur samband að fyrra bragði, það er enginn að spyrja hvort þetta hafi neikvæð áhrif fyrir mig eða hvort að andlega heilsa mín sé að hrapa eða batna, það er enginn að hugsa út í þetta,“ segir Alexander.
„Því fyrr, því betra, því öruggara fyrir mig og ódýrara fyrir samfélagið, að vera ekki að setja skattpeninga í að halda fólki sem er á götunni á götunni,“ segir hann enn fremur. Þá bætir hann við að þeir sem vilji leggja honum lið í bataferlinu geti haft samband beint við hann.
Fjallað var ítarlega um málefni heimilislausra í síðasta þætti Kompás þar sem rætt var við tvo einstaklinga um þeirra daglega líf á götunni og lífsbaráttuna sem einkennir hvern einasta dag.