Í tilkynningu frá Swapp Agency kemur fram að Helga Rún muni stýra gæðamálum Swapp Agency og hafa umsjón með innleiðingu ferla og sjálfvirknivæðingu þeirra. Hún starfaði áður í gæða- og öryggisdeild Festi þar sem hún verkefnastýrði fræðslu, viðburðum, framkvæmdi áhættumat og fleira er tengdist gæða- og öryggismálum hjá Festi og tengdum félögum. Áður gegndi hún stöðu aðstoðarvöruflokkastjóra Krónunnar. Helga Rún er með B.A. gráðu í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands auk þess sem hún stundar MBA nám við sama skóla.
Erla Soffía mun hafa umsjón með daglegum fjármálum Swapp Agency. Hún starfaði áður hjá Ferðaskrifstofu Harðar Erlingssonar og er með B.A. gráðu í þýsku frá Háskóla Íslands auk þess að hafa stundað nám við viðskiptafræðideild sama skóla. Einnig hefur hún sótt námskeið bókara hjá Promennt.
„Við hjá Swapp Agency erum virkilega ánægð með að fá Helgu Rún og Erlu Soffíu í teymið. Við höfum vaxið hratt undanfarin ár og báðar eru þær með fjölbreytta reynslu og verða mikilvægir hlekkir í frekari uppbyggingu fyrirtækisins," segir Davíð Rafn Kristjánsson, annar stofnanda og framkvæmdastjóri Swapp Agency.
Swapp Agency gerir samninga við vinnuveitendur um að borga starfsfólki sem er í fjarvinnu í öðru landi laun. Þá greiðir félagið skatta og launatengd gjöld í því landi sem starfsmaðurinn starfar í. Með þessu verður starfsmaðurinn launþegi á einfaldan hátt í því landi sem hann starfar og nýtur allra réttinda launafólks á vinnumarkaði.